Ekki sér fyrir endann á því öngþveiti sem orðið hefur í flugsamgöngum í Evrópu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
Þetta er þriðji dagurinn í röð sem farþegar komast ekki í flug vegna ösku sem er í háloftavindum. Askan ógnar flugöryggi og þess vegna hafa flugfélög aflýst flugi. Röskun á flugi hefur valdið gríðarlegu álagi á lestarsamgöngur í Evrópu og víða hafa myndast langar biðraðir þegar fólk hefur reynt að komast leiðar sinnar.