Flugumferð er áfram bönnuð víðast hvar í Evrópu vegna öskunnar frá Eyjafjallajökli. Hollensk og þýsk flugfélög sendu í gær nokkrar flugvélar á loft til að kanna hvaða áhrif það hefði á þær að fjúga gegnum öskuskýið og segja að vélarnar virðist ekki hafa skemmst.
Stjórnvöld í mörgum löndum hafa í morgun framlengt flugbanninu. Dönsk lofthelgi er lokuð til miðnættis að íslenskum tíma, hollensk lofthelgi er lokuð til hádegis í dag, þýsk til klukkan 18 og Finnar tilkynntu í morgun að þar yrði ekkert flogið fyrr en í fyrsta lagi á hádegi á morgun.
Þýska flugfélagið Lufthansa sendi í gær 10 flugvélar frá München til Frankfurt. Flugvélunum var flestum flogið í 3000 metra hæð en nokkrum í 8 kílómetra hæð. Vélarnar voru allar rannsakaðar eftir að þær lentu og ekki voru sjáanlegar neinar skemmdir á gluggum, eldsneytisleiðslum eða hreyflum.
Þá flaug hollenska flugfélagið KLM flugvél af gerðinni Boeing 737-800 yfir Hollandi í 10-13 km hæð og prófaði einnig aðrar hæðir. Ekkert benti til þess að skemmdir hefðu orðið á vélinni.