Japanar vilja handtaka Watson

Paul Watson og Terri Irwin um borð í skipinu Steve …
Paul Watson og Terri Irwin um borð í skipinu Steve Irwin. Reuters

Japönsk stjórnvöld vilja að gefin verði út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Paul Watson, leiðtoga náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd. Samtökin hafa undanfarin ár reynt að trufla hrefnuveiðar Japana í Suðurhöfum og beitt til þess ýmsum aðferðum.

Japanska strandgæslan hefur gefið út handtökuskipun á hendur Watson fyrir að skipa félögum í Sea Shepherd að trufla hvalveiðarnar. Munu japönsk stjórnvöld óska eftir því við alþjóðalögregluna Interpol að hún aðstoði við að handtaka Watson.

Í byrjun ársins lenti japanskt hvalveiðiskip í árekstri við hraðbátinn Ady Gil, sem Sea Shepherd ætlaði að nota til að hindra hvalveiðar.  Hraðbáturinn sökk en engan sakaði. Skipstjóri bátsins, Nýsjálendingurinn Peter Bethune, laumaðist nokkrum vikum síðar um borð í hvalveiðiskip í skjóli nætur og ætlaði að framkvæma borgaralega handtöku og leggja fram 3 milljóna dala reikning vegna tjónsins á Ady Gil.

Þess í stað var Bethune hnepptur í varðhald um borð í hvalveiðiskipinu og síðan handtekinn þegar skipið kom í höfn í Japan í mars.

Útsendarar Sea Shepherd sökktu tveimur hvalveiðiskipum í Reykjavíkurhöfn árið 1986. Paul Watson kom hingað til lands árið 1988 en var þegar handtekinn og síðan vísað úr landi. 

Paul Watson leiddur út úr Síðumúlafangelsi í janúar 1988.
Paul Watson leiddur út úr Síðumúlafangelsi í janúar 1988. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert