Tveir Norðmenn hafa á ný verið dæmdir til dauða í Lýðveldinu Kongó. Mennirnir voru dæmdir til dauða fyrir morð og fleiri afbrot á síðasta ári en dómurinn var ómerktur og málinu vísað á ný til herdómstóls.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þeir Tjostolv Moland og Joshua French hefðu myrt bílstjórann Abedi Kasongo þann 5. maí 2009 og stolið síðan peningum og bíl. Þá hafi þeir reynt að drepa aðstoðarmann bílstjórans og farþega.
Moland var einnig dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir ólöglega vopnaeign og til að greiða 50 þúsund kongófranka í sekt. Norðmennirnir voru einnig dæmdir til að greiða fjölskyldu bílstjórans 12 milljónir dala í bætur.
Að sögn fréttavef blaðsins VG var dómurinn kveðinn upp í bílskúr sem tengist herdómstól í Kisangani. Blaðið segir að dauðadómum sé ekki framfylgt í Kongó. Hefð sé fyrir að forseti landsins náði dauðadæmda fanga sem þurfi síðan að afplána ævilangt fangelsi.