Lítill áhugi á njósnurum

Rússar hafa sýnt heimkomu tíu landa sinna, sem urðu uppvísir að njósnum í Bandaríkjunum, frekar lítinn áhuga. Rússnesk blöð töldu fréttir af spádómum kolkrabba og páfagauks um úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu mikilvægari fréttir en fangaskipti Rússa og Bandaríkjamanna í gær.

Rússneskir ríkisfjölmiðlar sögðu frá komu Rússanna tíu til Moskvu í gær en sveipuðu fréttirnar ekki í þjóðræknisumbúðir eins og oft er gert. 

Blaðið Komsomolskaya Pravda fjallaði aðallega um afdrif tveggja dæmdra rússneskra njósnara, sem voru náðaðir í vikunni og fengu að fara úr landi í skiptum fyrir Rússana tíu. Heimkoma Rússanna fékk hins vegar minni athygli.

Blaðið Moskovskí Komsomolets mat það svo, að þetta væri fjórða mikilvægasta frétt gærdagsins en aðalfréttin var um fyrrnefnda dýraspádóma. Engar sjónvarpsstöðvar sýndu beint frá því þegar flugvél með Rússana tíu lenti á Moskvuflugvelli.

Kominn til Englands

Dmitrí bróðir hans sagði við AFP fréttastofuna, að Sutjagin væri þar ásamt öðrum Rússa, sem einnig var sleppt úr haldi í gær. Fjórir Rússar voru fluttir frá Moskvu til Vínarborgar í gær þar sem skipt var á þeim og Rússunum tíu, sem komu frá New York.  

Svo virðist, sem flugvélin, sem flutti Rússana fjóra frá Vínarborg, hafi komið  við á Brize Norton herflugvellinum á Englandi á leiðinni til Bandaríkjanna. Að sögn breskra fjölmiðla urðu Sutjagin og Sergei Skripal, fyrrum höfuðsmaður í rússnesku herlögreglunni, þar eftir en Skripal var dæmdur í Rússlandi fyrir að njósna fyrir Bretland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert