„Nýtt lýðveldi“ í Kenýa

Kenýabúar fagna.
Kenýabúar fagna. STR

Kenýamenn tóku nýrri stjórnarskrá fagnandi í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Kjörsókn var 71% og greiddu 67% kjósenda með nýju stjórnarskránni. Fyrirfram hafði verið óttast að kosningarnar kynnu að koma af stað blóðugum mótmælum líkt og áttu sér stað í landinu við forsetakosningarnar árið 2007.

„Þetta er sigur fyrir Kenýa, þjóðin hefur talað. Meirihlutinn fékk sínu fram en minnihlutinn fékk líka að koma skoðun sinni á framfæri," hefur AFP eftir Ahmed Issak Hassan, yfirmanni kjörstjórnar. „Stjórnarskráin hefur verið samþykkt með yfir 50 prósentum atkvæða sem greidd voru...því lýsi ég því hér með yfir að hin nýja stjórnarskrá hefur tekið gildi."

Þetta er í fyrsta skipti sem Kenýa tekur sér nýja stjórnarskrá síðan landið fékk sjálfsstæði frá Bretum árið 1963. Samkvæmt henni er staða forsætisráðherra lögð niður, miðlægu valdi dreift niður á sýslurnar og almennum mannréttindum  og lýðræði gert hátt undir höfði.

Iðnaðarráðherra Kenýa, Kiraitu Murungi, einn þeirra sem börðust hvað mest fyrir innleiðingu nýrrar stjórnarskrár, segir að kosningin marki endurfæðingu nýs lýðveldis í Kenýa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka