Svínaflensufaraldrinum er lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) sendi frá sér í dag.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur í kjölfarið lækkað viðbúnaðarstig sitt vegna flensunnar sem vísindamenn hafa nefnd H1N1. Stofnunin ákvað að tilkynna formlega að faraldrinum væri lokið eftir að nefnd á hennar vegum komst að þeirri niðurstöðu. Nefndin var skipuð 15 utanaðkomandi sérfræðingum. Ástralski smitsjúkdómafræðingurinn John Macenzie fór fyrir nefndinni.
Svínaflensan er talin hafa orðið að minnsta kosti 18.449 manns að bana en hennar varð vart í 214 löndum. Flensan er talin upprunin í Mexíkó en þaðan barst hún til Suðurríkja Bandaríkjanna í apríl í fyrra.
Þrátt fyrir viðbrögð heilbrigðisyfirvalda um allan heim breiddist veiran út með ógnarhraða og olli víða mikilli skelfingu meðal almennings. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti yfir neyðarástandi vegna flensunnar 11 júní í fyrra.