Aðgerðir eru hafnar til að bjarga um 70 tvöhundruð ára gömlum kampavínsflöskum af botni Eystrasaltsins, að sögn embættismanns á Álandseyjum. Flöskurnar fundust í skipsflaki á hafsbotni.
„Allt bendir til þess að við séum að bjarga elsta kampavíni í heiminum,“ sagði Rainer Juslin, ritari mennta- og menningarmálaráðuneytis Álandseyja.
„Flöskurnar sem liggja óbrotnar á sjávarbotni á um 50 metra dýpi verða nú færðar upp á yfirborðið,“ segir í yfirlýsingu stjórnvalda á Álandseyjum. Þar segir einnig að hver flaska sé metin á þúsundir evra.
Það voru sænskir kafarar sem voru að kafa við strendur Finnlands í síðasta mánuði sem fundu flöskurnar. Talið er að þær séu úr sendingu Loðvíks XVI. Frakkakonungs til hirðar Rússakeisara. Ekki er enn vitað hvað kampavínið er raunverulega gamalt.
Sjá má leifar akkerismerkis á korktöppunum. Það varð til þess að sérfræðingar töldu í fyrstu að kampavínið sé komið úr víngeymslum vínframleiðandans þekkta Veuve-Clickuot. Það merki prýðir enn eftirsótt og dýrt kampavín.
Eftir prófun og rannsókn á kampavíni úr flösku af hafsbotni komust sérfræðingar að því í ágústbyrjun að vínið sé í raun komið frá víngerðarhúsinu Juglar, sem nú er hætt starfsemi.
„Innihald flaskanna hefur varðveist afburða vel í um 200 ár á hafsbotni,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.
„Jafnt hitastigið og ljósmagnið hefur skapað ákjósanlegustu aðstæður til varðveislu og þrýstingurinn í flöskunum varnaði því að sjór kæmist í þær í gegnum korktappana.“
Dominique Demarville, yfirkjallarameistari Veuve-Clicquot, er einn örfárra sem fékk að bragða á fáeinum millilítrum af víninu. Það er talið hafa verið framleitt á fyrsta þriðjungi 19. aldar.
Það er því ekki ljóst hvort hér er um að ræða elsta kampavín sem drukkið hefur verið. Í fyrra fengu sérfræðingar í London að smakka á kampavíni frá Perrier-Jouet af árgangi 1825.