Telja sig dauðadæmda

Þyrlur sækja vatn til að kæla Fukushima kjarnorkuverið.
Þyrlur sækja vatn til að kæla Fukushima kjarnorkuverið. Reuters

Hundrað og áttatíu Japanir eru staddir í og við Fukushima kjarnorkuverið til þess að kæla kjarnakljúfa þess og koma þannig í veg fyrir stórslys. Geislunin frá kjarnaofnunum er hins vegar orðin mikil og eru mennirnir farnir að senda ástvinum sínum skilaboð þar sem þeir telja sig dauðadæmda.

Japanska ríkissjónvarpið hefur náð tali af nokkrum ættingjum mannanna, en kjarnorkuverið vill halda nöfnum þeirra leyndum. Japönsk kona sagði föður sinn vera búinn að sætta sig við örlög sín líkt og um dauðarefsingu væri að ræða. Önnur kona sagði eiginmann sinn vinna í verinu þrátt fyrir að vera meðvitaður um geislavirknina. Hann sendi henni skilaboð þar sem stóð: „Ég bið þig um að halda áfram að lifa góðu lífi, ég kem ekki heim í einhvern tíma.“

Stórar herþyrlur voru í dag notaðar til að hella vatni á kjarnoruverið til að reyna að kæla það.  Þá var undir kvöld í Japan byrjað að nota sérstaka slökkviliðsbíla frá japanska hernum til að dæla vatni á verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert