Flugvélarflak fannst í Atlantshafi

Brak úr vélinni fannst skömmu eftir flugslysið, en sjálf vélin …
Brak úr vélinni fannst skömmu eftir flugslysið, en sjálf vélin hefur ekki fundist fyrr en nú. Myndin sýnir brasilíska leitarmenn með stél vélarinnar 8. júní árið 2009. Reuters

Leitarhópur hefur fundið flak Air France farþegaþotu sem fórst í Atlantshafi fyrir tæpum tveimur árum. 228 voru um borð í vélinni.

Rannsakendur í París segja að vélin hafi fundist á síðastliðnum sólarhring, en þeir hafa ekki viljað tjá sig um málið í smáatriðum. Enn er ekki vitað hvers vegna vélið hrapaði í hafið óveðri þann 1. júní 2009.

Flugvélaframleiðandinn Airbus, sem smíðaði vélina, segir að það muni ekki koma í ljós fyrr en búið verði að finna flugritann og rannsaka hann.

Leitin hófst í síðasta mánuði og er þetta í fjórða sinn sem leitað er að vélinni. Hún var að fljúga frá Rio de Janeiro í Brasilíu til Parísar þegar hún fórst.

Flugvélaframleiðandinn Airbus, sem smíðaði vélina, og Air France fjármögnuðu leitina. Kafað var á 4.000 metra dýpi og voru m.a. sérstök leitarvélmenni notuð, en þau rannsökuðu hafsbotninn á milli Brasilíu og Vestur-Afríku.

Nýverið gaf franskur dómari út ákæru til bráðabirgða á hendur Air France, sem er sakað um manndráp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert