Ný stjórnarskrá samþykkt í Ungverjalandi

Jobbik-flokkurinn mótmælir nýju stjórnarskránni við atkvæðagreiðsluna í ungverska þinginu í …
Jobbik-flokkurinn mótmælir nýju stjórnarskránni við atkvæðagreiðsluna í ungverska þinginu í dag. BERNADETT SZABO

Afgerandi meirihluti ungverska þingsins samþykkti í dag nýja og umdeilda stjórnarskrá. Í henni er meðal annars talað um guð, kristni, hina heilögu krúnu Ungverjalands, föðurlandið, þjóðarstolt og hina hefðbundnu fjölskyldueiningu.

„Við urðum vitni að sögulegri stund þegar þingið samþykkti nýju stjórnarskrána. Hún viðurkennir kristnina sem grundvöll siðmenningar okkar en hún hún tryggir siðferðislegt frelsi,“ sagði Laszlo Kover, þingforsetinn og þingmaður Fidesz-flokks Viktors Orbans forsætisráðherra áður en hann bað þingmenn um að rísa úr sætum til þess að syngja þjóðsöng landsins.

Þingmenn stjórnarandstöðu sósíalista og vinstrigræna flokksins LMP sniðgengu atkvæðagreiðsluna en hinn öfgahægri sinnaði Jobbik-flokkur kaus gegn stjórnarskránni. Vildu fulltrúar hans meina að hún geri að engu aðgreiningu valds.

Stjórnarskráin var eingöngu samin af fulltrúum miðhægriflokks Orbans forsætisráðherra án þátttöku stjórnarandstöðuflokkanna. Verður hún undirrituð af Pal Schmitt, forseta landsins, þann 25. apríl og tekur gildi þann 1. janúar 2012.

Andstæðingar hennar hafa sagt hina svokölluðu Orban-stjórnarskrá tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að festa völd sín í sessi og að þvinga kristna hugmyndafræði sína upp á landsmenn.

„Þessi nýju grundvallarlög koma til með að vera ólögleg og tímabundin. Það mun þurfa að breyta þeim eftir næstu kosningar að almenn sátt ríki um hana,“ sagði Attila Mesterhazy leiðtogi sósíalista.

Á meðan á atkvæðagreiðslunni í þinginu stóð safnaðist hópur fólks saman fyrir utan þinghúsið til þess að mótmæla nýju stjórnarskránni. Voru mótmælin skipulögð í gegn Facebook og fólust í því að eftirlíking af tölvuleikjafígúrunni Pacman í appelsínugulum einkennislit Fidesz-flokksins var látin éta skilti sem átti að tákna lög og reglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert