Frakkar í viðræðum við Gaddafi

Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakka.
Alain Juppe, utanríkisráðherra Frakka. AP

Utanríkisráðherra Frakklands, Alain Juppe, staðfesti í dag að frönsk stjórnvöld hefðu átt í viðræðum við stjórn Moammar gaddafi, einræðisherra Líbíu, um að hann færi frá völdum. Hann sagði þó að engar formlega samningaviðræður hefðu verið í gangi. Reuters fréttaveitan greinir frá þessu í dag.

Juppe sagði að fulltrúar frá stjórn Gaddafi hefðu fært frönskum ráðamönnum þau skilaboð að hann væri reiðubúinn að fara frá völdum og þeir hafi talið ástæða til þess að ræða málið.

Áður hafði verið greint frá því að sonur Gaddafis, Seif al-Islam, hafi sagt alsírsku dagblaði að beinar samningaviðræður hefðu farið fram á milli einræðisherrans og franskra stjórnvalda.

Í gær viðurkenndi franska utanríkisráðuneytið að óbein samskipti hefðu farið fram við stjórn Gaddafis en engar beinar viðræður væru í gangi. Frakkar hafa hvatt uppreisnarmenn í Líbíu til þess að hefja viðræður við hersveitir hlynntar Gaddafi um endalok átakanna í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert