Upplýsingar um fangaflug í dómskjölum

Ein þeirra flugvéla, sem talið er að CIA hafi notað …
Ein þeirra flugvéla, sem talið er að CIA hafi notað til fangaflutninga, á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Sverrir

Deilur um peninga fyrir dómstóli í New York leiddu til þess að upplýsingar um leynilegt fangaflug á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin fyrir réttum áratug eru komnar upp á yfirborðið.

Í dómskjölum, sem lögð hafa verið fyrir áfrýjunardómstól, er fjallað um tugi flugferða til staða á borð við Búkarest, Bakú, Kaíró, Djiouti, Íslamabad og Tripoli. Um er að ræða skjöl frá fyrirtækinu Sportsflight, sem skipulagði leiguflug fyrir bandarísk stjórnvöld og leigði meðal annars Gulfstream þotu hjá félaginu Richmor Aviation. Það félag hefur nú stefnt Sportsflight fyrir samningsbrot.

Fram kemur í skjölunum að þegar Sportsflight hóf að skipuleggja flugferðirnar árið 2002 hafi tilgangurinn ekki verið ljós. En á endanum hafi verið upplýst að flugferðirnar voru farnar til og frá herstöð Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu þar sem settar voru upp fangabúðir fyrir meinta hryðjuverkamenn.  

Richmor krefst þess að Spotsflight greiði 1,1 milljón dala, jafnvirði 126 milljóna króna, fyrir leigu á flugvélinni vegna flugferða, sem síðan var hætt við.

1.775 síður af skjölum

Alls eru dómskjölin 1.775 síður, þar á meðal reikningar og ferðalýsingar vegna fjölda flugferða fyrir CIA. Síðasta ferðin með þotu Richmor fyrir CIA var farin í janúar 2005, kostaði 4.900 dali á klukkustund, 560 þúsund krónur, og var farin til að flytja „meinta hryðjuverkamenn."

Að sögn blaðsins Washington Post fékk Richmor að minnsta kosti 6 milljónir dala, nærri 700 milljónir króna, í leigugreiðslur fyrir flugvélina á þessum þremur árum. Það flug, sem fjallað er um í málsskjölunum, er aðeins lítill hluti af öllum fangaflugferðunum sem farnar voru á vegum CIA á þessum tíma og því þykir ljóst að stofnunin hafi varið tugum milljóna dala til að leigja einkaflugvélar til fangaflutninganna. 

Hvorki CIA né bandaríska utanríkisráðuneytið hafa viljað tjá sig um þessar fréttir.

Málsskjölin sýna, að Sportsflight samþykkti að hafa Gulfstream IV einkaþotu tiltæka með 12 tíma fyrirvara.

„Viðskiptavinurinn segir að það verði afar, afar mikið að gera," sögðu fulltrúar Sportsflight við stjórnendur Richmor. 

Fangi sóttur til Taílands

Washington Post lýsti einu slíku flugi, sem átti sér stað 12. ágúst 2003 þegar Gulfstream IV þota með 6 farþega innanborðs, fór frá Dulles-flugvelli við Washington áleiðis til Bangkok í Taílandi. 

Áður en vélin kom aftur til Washington, fjórum dögum síðar, hafði hún lent í Afganistan, á Srí Lanka, í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og á Írlandi. Flugferðin virðist tengjast handtöku Indónesans Riduan Isamuddin, sem talinn er hafa staðið fyrir hryðjuverkarásinni á Bali árið 2002. Flugferðin kostaði 339.228,05 dali eða tæpar 39 milljónir króna.

Isamuddin var handtekinn í Taílandi. Á næstu þremur árum var hann oft fluttur milli leynilegra fangelsa.

Gulfstream IV-flugvélin komst í fréttir árið 2005 þegar fram kom, að hún var notuð þegar egypskur múslimaklerkur var handtekinn í Mílanó á Ítalíu. Flogið var með hann til Egyptalands þar sem hann segist hafa sætt pyntingum.

Þá segir breska blaðið Guardian að talið sé að flugvélin hafi einnig verið notuð við flutninga á Khalid Sheikh Mohammed, háttsettum al-Qaedaliða sem talinn er hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Bandaríkjastjórn hefur viðurkennt að „óhefðbundnum yfirheyrsluaðferðum" hafi verið beitt við yfirheyrslur á Khalid.  Guardian segir að hann hafi sætt vatnspyntingum 183 sinnum á einum mánuði.

Khalid Sheikh Mohammed þegar hann var handtekinn árið 2003.
Khalid Sheikh Mohammed þegar hann var handtekinn árið 2003.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka