Darling gagnrýnir Brown

Alistair Darling og Gordon Brown.
Alistair Darling og Gordon Brown. Reuters

Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, segir í væntanlegri ævisögu sinni, að Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi stýrt með harðri hendi og ekki gert sér grein fyrir því hve alvarleg áhrif fjármálakreppan myndi hafa á breska hagkerfið.

Blaðið Sunday Times birti kafla úr endurminningum Darlings í dag. Þar kemur fram, að þeir Brown hafi deilt um þörfina á því að skera niður opinber útgjöld.

„Skildi hann ekki, að ég reyndi í örvæntingu að útbúa raunhæfan grundvöll fyrir hann, fyrir ríkisstjórnina, sem hægt væri að byggja framhaldið á?“ spyr Darling í ævisögunni að því er kemur fram á vef sjónvarpsstöðvarinnar Sky.

Darling segir, að árið 2008 hafi Brown verið sannfærður um að samdráttarskeiðinu yrði lokið eftir hálft ár. Því hafi „spunavélin“ í Downingstræti 10 brugðist ókvæða við þegar Darling sagði í í fjölmiðlaviðtali að samdráttarskeiðið væri það alvarlegasta sem komið hefði í 60 ár. 

„Enginn vildi viðurkenna, að við stefndum í átt að mjög alvarlegri niðursveiflu. (...) Ég var fordæmdur fyrir að segja sannleikann. Hefði ég vitað, að Gordon tryði því að efnahagsbati væri handan við hornið - ef hann hefði sagt mér, fjármálaráðherranum sínum, þetta - þá hefðum við getað rætt málið. En vandamálið var, að hann treysti ekki ráðleggingum mínum og virtist vera sama um það sem ég var að hugsa.“

„Hann segir, að þessir „myrku dagar“ hafi haft mikil áhrif á samband hans og Browns. „Það varð aldrei samt aftur.“

Darling segir, að hegðan Browns hafi stundum verið hræðileg og hann hafi komið málum í gegn með ýmiskonar leynimakki. „Þetta var frekar grimmileg stjórn og margir okkar urðu fyrir barðinu á henni,“ segir Darling og bætir við, að út frá sínu sjónarhorni hafi ríkt alger óstjórn í Downingstræti 10 á meðan Brown var forsætisráðherra.

Í bókinni segir Darling einnig, að Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, hafi árið 2007 ekki heldur gert sér grein fyrir því hve alvarlegt útlit var í efnahagsmálum. Segist Darling hafa viljað að seðlabankinn gripi til ráðstafana til að auka lausafé í fjármálakerfinu til að koma í veg fyrir að það frysi. King hafi hins vegar sagt, að það væri ekki hlutverk seðlabankans að aðstoða banka við að eyða og spenna.

Darling segir, að þetta hafi sýnt að King gerði sér ekki grein fyrir umfangi vandans og jafnframt sýnt fram á hve slæmt samband var á milli Englandsbanka og stærstu banka landsins. Segist Darling hafa rætt við embættismenn um hvort hægt væri að grípa fram fyrir hendurnar á King. Niðurstaðan var að slíkt væri lagalega mögulegt að myndi leiða til opinberra deilna sem gætu haft hrikalegar afleiðingar.

Bók Darlings, sem nefnist Back from the Brink: 1,000 Days at Number 11, kemur út á miðvikudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka