Talið er að á bilinu fimm hundruð til eitt þúsund manns hafi látið lífið af völdum jarðskjálftans sem reið yfir austurhluta Tyrklands í morgun og liggi undir hrundum byggingum, sagði yfirmaður jarðskjálftastofnunar í Istanbúl í samtali við blaðamenn. Skjálftinn sem reið yfir borgina Van mældist 7,3 stig og er sá sterkasti í Tyrklandi í mörg ár en borgin hefur einnig verið skekin af eftirskjálftum, þeim sterkasta 5,6 stig.
Yfirvöld vinna nú að því að senda leitar- og björgunarlið til svæðisins auk gervihnattasíma en sambandslaust er við borgina.
Yfirvöld segja að tugir manna séu særðir eftir að byggingar hrundu í borginni Van í austurhluta Tyrklands en borgin er að mestu byggð Kúrdum. Fjölmargar margra hæða byggingar, hótel og heimavistir hafi hrunið og heyra megi raddir undan húsarústunum. Innanlandsráðherra Tyrklands, Besir Atalay, segir að um fjörutíu byggingar hafi hrunið í borginni og nágrenni hennar.
Miðja skjálftans var í Tanbanli í Van-héraði. Tveir eftirskjálftar höfðu sérstaklega áhrif á þorpin Ilikaynak and Gedikbulak en ekki eru enn komnar fregnir af skemmdum þar eða slysum á fólki. Skjálftarnir fundust við landamærin í norðvesturhluta Írans og greip nokkur skelfing um sig meðal fólks í stærri borgum þar að sögn íranskra fjölmiðla.
Jarðskjálftar eru tíðir í Tyrklandi en nokkur brotabelti eru í landinu. 20 þúsund manns létu lífið árið 1999 þegar tveir öflugir skjálftar urðu í norðvesturhluta landsins. Þá létu um þúsund manns lífið í Kutahya-héraði árið 1970 og 3.480 manns létust árið 1976 í kröftugum jarðskjálta í bænum Caldiran í Van-héraði.