Fjöldayfirlið í verksmiðju H&M

Frá Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu
Frá Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu mbl.is/Una

Yfir 200 kambódískir verkamenn í verksmiðju sænska tískurisans H&M féllu í yfirlið við störf sín á mánudag og þriðjudag. Að sögn lögreglu í Kambódíu er þetta í þriðja skipti á þessu ári sem atvik sem þessi koma upp í verksmiðjum H&M þar í landi.

Verksmiðjunni sem um ræðir var lokað á mánudag eftir að fjöldi starfsmanna varð veikur, en þegar þeir sneru aftur til starfa á þriðjudag urðu margir aftur veikir.

„Þeir urðu veikir og fengu höfuðverk," hefur Dagens Nyheter eftir lögreglumanninum Keo Pisey í Kompong Speu-héraði, þar sem sænska verksmiðjan er. Margir starfsmenn köstuðu upp og aðrir féllu í yfirlið. Að sögn lögreglu er ástæðan talin vera efni sem notuð eru í verksmiðjunni til að halda kakkalökkum í skefjum. Dagens Nyheter hefur eftir talsmönnum H&M að málið sé í rannsókn.

Um 300.000 Kambódíumenn vinna í verksmiðjum sem framleiða tískufatnað.  Flestar verksmiðjurnar eru í eigu kínverskra og taívanskra fyrirtækja. Um láglaunastörf er að ræða og undanfarið hefur ítrekað komið til verkfalla starfsmanna vegna bágra aðstæðna í verksmiðjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert