Hljóðupptaka úr bandarísku forsetavélinni Air Force One frá því 1963, þegar John F. Kennedy var myrtur, var sett á sölu hjá uppboðshúsi í Fíladelfíu í dag. Styttri útgáfa af upptökunni er í vörslu forsetasafns Lyndon Johnson en þessi útgáfa er óklippt og 30 mínútum lengri en opinbera útgáfan.
Upptakan fannst meðal persónulegra muna Ted Clifton, sem starfaði sem hernaðarmálaráðgjafi bæði Kennedy og Johnson. Á henni eru hljóðrituð samtöl milli flugvélarinnar, Hvíta hússins og annarra staða, strax í kjölfar þess að Kennedy var myrtur.
Samtölin snúast meðal annars að því hvað ætti að gera við líkamsleifar forsetans, hvert ætti að fara með forsetafrúnna, hvernig standa ætti að krufningunni og fleira.
„Á meðan Bandaríkjamenn hafa velt vöngum yfir morðinu á Kennedy í leit að svörum, hefur þessi upptaka, af samtölum um borð í Air Force One, gerð mörgun árum áður en sú sem vitað var um, legið í geymslu á einhverju háalofti,“ segir Nathan Raab hjá Raab-safninu, sem hefur metið virði upptökunnar á um hálfa milljón dollara, eða um 59 milljónir króna.
Stafræn útgáfa af upptökunni verður gefin forsetasafni John F. Kennedy og bandaríska þjóðskjalasafninu.