Kennsl borin á lík Íslendings sem fórst með vél Air France

Brak úr flugvél Air France.
Brak úr flugvél Air France. Reuters

Sendiráð Íslands í Noregi hefur hringt til Inge Gustafsson og látið hann vita að lík bróður hans, Helge Gustafsson, hafi fundist í flaki flugvélar Air France, sem fórst í Atlantshafi um mitt árið 2009.

Helge Gustafsson var íslenskur ríkisborgari en hafði lengi búið í  Noregi.  Hann var 44 ára þegar hann lést, faðir hans var íslenskur en sjálfur ólst Helge upp á Askøy og fjölskylda hans býr í nágrenni Björgvinjar. Hann flutti til Brasilíu fyrir sex árum en vann áfram fyrir norskt fyrirtæki. Hann var á leið til Angola þegar flugvél Air France fórst.  

Inge segir við bt.no, að þetta hafi átt að vera síðasta ferðalag bróður hans milli heimsálfa en hann var að undirbúa að flytja aftur til Noregs.  

Helge Gustafsson lætur eftir sig tvær dætur, 20 og 22 ára, og 11 ára son.

Gert er ráð fyrir að útför Helge fari fram á  Askøy í lok nóvember. 

228 fórust

Flugvélin hrapaði á leið sinni frá Rio de Janeiro í Brasilíu til Parísar í Frakklandi 1. júní 2009. Allir um borð létust, alls 228 manns.

Flak vélarinnar fannst í apríl á þessu ári og flugritar hennar fundust í byrjun maí. Upptökur á samtölum flugmanna leiddu í ljós að flugvélin missti hratt hæð og steyptist í sjóinn. 

Alls hefur tekist að ná 127 líkum úr sjónum og flakinu, þar af 50 lík strax eftir að slysið varð og 77 lík eftir að flak vélarinnar fannst í apríl.

Frétt Bergens Tidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert