Fréttaskýring: Kosningasvikum lýst í Rússlandi

Embættismaður, sem starfaði á kjörstað í Moskvu, lýsir því í samtali við AP-fréttastofuna hvernig kosningasvik voru framin í þingkosningunum í Rússlandi á sunnudag.

Embættismaðurinn sagði, að starfsmenn á kjörstaðnum hefðu allan kjördaginn troðið fölsuðum kjörseðlum, þar sem merkt var við Sameinað Rússland, flokk Vladímírs Pútíns forsætisráðherra, í kjörkassana en þegar atkvæðin voru talin hafði flokkurinn samt ekki fengið 65% atkvæða á kjörstaðnum eins og markmiðið var.

Þess vegna var haldinn fundur kjörstjórnarinnar á kjörstaðnum. Ákvörðunin: Pútín fengi sín 65%. Einn kjörstjórnarmaður mótmælti en gaf eftir, þegar aðrir í kjörstjórninni bættu við nokkrum tugum atkvæða við Kommúnistaflokkinn, sem kjörstjórnarmaðurinn studdi. 

Maðurinn veitti AP viðtal undir nafnleynd en hann óttaðist að missa ella starf sitt. Hann sagði jafnframt, að hægt væri að refsa honum fyrir að óhlýðnast skipunum um, að tilkynna öll samskipti við erlenda eftirlitsmenn og blaðamenn til rússnesku öryggisþjónustunnar, FSB.

Tróð atkvæðum í kjörkassann

AP segir, að þessi lýsing kjörstjórnarformannsins sé ekki ósvipuð lýsingum frá öðrum kjörstöðum í Rússlandi. Myndskeið, sem fólk hefur sett á netið, virðast einnig sýna að fölsuðum kjörseðlum sé stungið í kjörkassa í stórum stíl.  Á einu myndskeiði sést m.a. formaður kjörstjórnar á einum kjörstað troða fjölda atkvæðaseðla í kjörkassa. Myndskeiðið vakti það mikla athygli, að embættismenn í Moskvu neyddust til að viðurkenna, að formaðurinn hefði verið staðinn að verki við að falsa kjörseðla og gæti þurft að svara til saka.

Samkvæmt opinberri niðurstöðu kosninganna fékk Sameinað Rússland rúmlega 50% atkvæða í landinu öllu en fékk 64% í síðustu þingkosningum fyrir fjórum árum. Frásagnirnar af kosningasvikunum virðast benda til þess, að flokkurinn hafi tapað enn meira fylgi í raun. 

Mótmælaaðgerðir hafa verið í Moskvu tvo daga í röð en þar er úrslitum kosninganna mótmælt. Yfir 300 manns voru handteknir í borginni í gær þegar þeir ætluðu að ganga að höfuðstöðvum yfirkjörstjórnar Rússlands skammt frá Kreml.

Sömdu um úrslitin

Kjörnefndarformaðurinn, sem AP ræddi við, sagði að fulltrúar fjögurra stærstu flokka Rússlands í kjördæminu hefðu komið saman fyrir kosningarnar til að semja um hve mörg atkvæði hver þeirra fengi í hverri kjördeild. Sameinað Rússland vildi upphaflega fá 68-70% í kjördeild kjörnefndarformannsins en viðurkenndi síðan að það væri of hátt og sætti sig við 65%. 

Á kjördag hefðu starfsmenn kjörstjórnarinnar síðan laumað kjörseðlum í kjörkassana, allt að 50 seðlum í hvert skipti, og reynt að gæta þess að ekki skrjáfaði í pappírnum og að eftirlitsmenn sæju ekki til. 

Hann sagði, að starfsmenn væru þjálfaðir í að stinga seðlum í kjörkassana. Hann sýndi AP hvernig hægt væri að brjóta kjörseðlabunka saman, stinga seðlunum í innri jakkavasa og lauma þeim síðan í kjörkassann hljóðlaust.

Sat í 12 tíma

Kjörstjórnarformaðurinn sýndi blaðamanni AP kjörstaðinn og benti á vegg í talsverðri fjarlægð frá kjörkassanum. Þar sagðist hann hafa látið eftirlitsmennina sitja. Einn þeirra hefði verið afar samviskusamur og aldrei farið út úr salnum í þá 12 tíma sem kjörfundurinn stóð.

Formaðurinn sagðist hafa fengið lögregluna til að vísa umræddum eftirlitsmanni út úr salnum 10 mínútum áður en kjörstaðnum var lokað og þá var of seint að fá annan í staðinn.

Þegar atkvæði voru talin á kjörstaðnum hafði Sameinað Rússland aðeins fengið um 50% af atkvæðunum þrátt fyrir alla aukaatkvæðaseðlana; formaðurinn segir að í raun hafi flokkurinn aðeins fengið um 25%. Kjörsókn var lítil sem einnig þykir áfall fyrir Pútín og stuðningsmenn hans. 

En þegar kjörnefndarformaðurinn tilkynnti niðurstöðuna til svæðiskjörstjórnarinnar var honum sagt, að í opinberri skýrslu ætti Sameinað Rússland að vera skráð fyrir 65% atkvæða á kjörstaðnum. Allir 15 kjörstjórnarmennirnir þurftu að skrifa undir þá skýrslu. Einnig bárust fyrirmæli um að hækka tölur um kjörsókn. 

Flestir kjörstjórnarmennirnir voru tilbúnir til að fara eftir þessum fyrirmælum. Sá eini sem mótmælti gaf eftir þegar nokkrir tugir atkvæða voru færðir frá minni flokkum til Kommúnistaflokksins. 

Pútín brugðið

Pútín, sem var forseti Rússlands frá 2000 til 2008 og tók síðan við embætti forsætisráðherra, vonast til að verða forseti á ný í mars þegar forsetakosningar fara fram í Rússlandi. Hann reiknaði með því að fá mikinn stuðning í þingkosningunum nú til að styrkja stöðu sína.

Honum virtist nokkuð brugðið vegna úrslitanna og einnig yfir því að lítil ánægja virðist ríkja í Rússlandi með þá ákvörðun hans og Dmitrís Medvedes, núverandi forseta Rússlands, að skiptast á embættum.

Margir Rússar eru orðnir þreyttir á Pútín og spillingunni, sem ríkir í skjóli valdhafanna.  

Hins vegar þykir ljóst að Pútín mun sigra í kosningunum en hann nýtur meiri vinsælda en flokkur hans og ólíklegt er að aðrir sterkir frambjóðendur komi fram.

Pútín virðist gera sér grein fyrir því, að hann þarf að bregðast við óánægjunni en í gær benti ekkert til þess að hann vissi hver þau viðbrögð ættu að vera.

„Við verðum að sjálfsögðu að velta þeim spurningum fyrir okkur af hverju fólk hefur áhyggjur og hvers vegna það greiddi Sameinuðu Rússlandi ekki atkvæði heldur öðrum flokkum,“ sagði Pútín. „Við verðum að greina þessi vandamál og móta tillögur um hvernig hægt er að leysa þau.“ 

Kjörseðlum hellt úr kjörkassa á talningarstað í Rússlandi.
Kjörseðlum hellt úr kjörkassa á talningarstað í Rússlandi. Reuters
Kjörseðlum hellt úr kjörkassa á talningarstað í Rússlandi.
Kjörseðlum hellt úr kjörkassa á talningarstað í Rússlandi. Reuters
Vladímír Pútín á kjörstað í Moskvu.
Vladímír Pútín á kjörstað í Moskvu. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert