Fangelsisdómur staðfestur yfir dönskum foreldrum

Vestri-Landsréttur í Álaborg í Danmörku dæmdi í dag svonefnda Brønderslev-foreldra fyrir að misþyrma börnum sínum og vanrækja þau. Maðurinn var dæmdur í 11 ára fangelsi en konan í 4 ára fangelsi. Konan var látin laus í kjölfarið en hún hefur setið í gæsluvarðhaldi í 2 ár. Hún þarf þó væntanlega að afplána nokkra mánuði til viðbótar síðar.

Maðurinn, sem heitir Harry Antoft Larsen og er 41 árs, var í héraðsdómi dæmdur í ótímabundið fangelsi en yfirréttur mildaði dóminn á þeirri forsendu, að Larsen væri ekki hættulegur öryggi almennings. Larsen var meðal annars fundinn sekur um að hafa nauðgað bæði dóttur sinni og stjúpdóttur.

Larsen og kona hans, Tina Jensen, sem er 38 ára, eiga samtals 10 börn. Þau hjón voru sakfelld fyrir að hafa vanrækt skyldur sínar gagnvart börnunum, ekki gætt þess að þau fengju nóg að borða, hirtu sig og klæddu.  

Þá voru þau bæði fundin sek um að hafa beitt börnin ofbeldi.  Hann var m.a. fundinn sekur um að hafa látið elstu dóttur sína drekka hundahland og borða dýraúrgang. Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa neytt hana til að grafa eigin gröf og til að moka snjó klæðlitla, með þeim afleiðingum að stúlkuna kól á sjö tám. Þá voru hjónin sakfelld fyrir að hafa lokað stúlkuna inni í köldu herbergi í langan tíma.   

Fjölskyldan bjó í smábænum Serritslev í sveitarfélaginu Brønderslev á Norður-Jótlandi. Félagsmálayfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa lítið aðhafst í málefnum fjölskyldunnar.

Tina Jensen ræddi við fjölmiðla eftir að henni var sleppt í dag, og sagðist aðspurð sjá mest eftir því, að hafa hitt Hansen.  Sagðist hún ráðleggja fólki, að hugsa sig vel um þegar það veldi sér maka.

Viðtal við Tinu Jensen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert