Valdaránstilraun í Gíneu-Bissá

Reynt var að steypa Malam Bacai Sanhá, forseta Gíneu-Bissá, af …
Reynt var að steypa Malam Bacai Sanhá, forseta Gíneu-Bissá, af stóli. Reuters

Valdaránstilraun í Gíneu-Bissá, sem leidd var af liðhlaupum úr her landsins, mistókst í dag.

„Lítill hópur hermanna reyndi að steypa af stóli yfirstjórn hersins og ríkisstjórn landsins en þeim mistókst það,“ sagði Antonio Indjai, yfirhershöfðingi í Gíneu-Bissá, og bætti við: „Ástandið hefur róast, þökk sé hernum og ríkisstjórninni.“

Hermenn, sem kröfðust hærri launa, réðust á höfuðstöðvar hersins í landinu og streymdu síðan út á götur Bissá, höfuðborgar landsins.

Indjai var staddur inni í höfuðstöðvum hersins í hverfinu Bissau Velho í miðborg höfuðborgarinnar þegar liðhlauparnir réðust þangað inn. Talsmaður Indjai ásakaði Jose Americo Bubo Na Tchuto, æðsta yfirmanns sjóhersins, um að vera höfuðpaurinn á bak við valdaránstilraunina.

Na Tchuto var handtekinn í dag ásamt öðrum háttsettum yfirmönnum í hernum. Hann er mjög umdeildur í Gíneu-Bissá og hefur í gegnum tíðina verið bendlaður við þó nokkrar valdaránstilraunir. Jafnframt hefur hann lengi verið grunaður um að hafa mikil tengsl við fíkniefnasmyglara.

Ráðist var á höfuðstöðvar hersins snemma í morgun. Hermenn hertóku bygginguna með því að skjóta byssukúlum upp í loftið í tæpan hálftíma. Því næst réðust vopnaðir hermenn út á götur höfuðborgarinnar og reistu þar vegatálma í kringum höfuðstöðvar hersins og í breiðgötunni sem liggur að heimili Carlos Gomes Juniors, forsætisráðherra landsins. Hermenn úr mismunandi herdeildum sáust á götum úti vopnaðir vélbyssum, Kalashnikov-herrifflum og eldflaugabyssum.

Gomes tókst að flýja yfir í angólska sendiráðið í Bissá, en það er hinum megin við götuna frá heimili hans. Þar hlaut hann tímabundið skjól, en angólska sendiráðið í borginni er varið af lítilli herdeild.

Malam Bacai Sanha, forseti Gíneu-Bissá, var ekki í landinu þegar árásin fór fram en hann liggur á spítala í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert