Ný stjórnarskrá tekur gildi í Ungverjalandi

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Reuters

Ný stjórnarskrá Ungverjalands tók gildi í dag. Stjórnarandstæðingar vara við því að forsætisráðherra landsins, Viktor Orban, hafi valdið miklum og jafnvel óafturkræfum spjöllum á lýðræði í Ungverjalandi.

„Grundvallarlögin“, en það er formlegt heiti stjórnarskrárinnar, voru undirrituð í apríl á síðasta ári en ákvæði þeirra m.a. heimila ríkisstjórn landsins að breyta löggjöf eftir geðþótta. Grundvallarlögin hafa hlotið mikla gagnrýni frá m.a. Evrópusambandinu, mannréttindasamtökunum Amnesty International og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

„Um er að ræða eins flokks og ólögmæta stjórnarskrá sem er óásættanleg í hugum allra lýðræðissinna,“ sagði Csaba Molnar, talsmaður stjórnarandstöðuflokksins DK. Molnar ásakar ríkisstjórn landsins um að „afnema lýðræði og réttarríkið“.

Stjórnarandstaðan hefur skipulagt mótmæli sem haldin verða á morgun á sama tíma og ríkisstjórnin fagnar gildistöku nýju stjórnarskrárinnar á sérstöku galakvöldi í óperuhúsinu í Búdapest.

Að sögn Guys Verhofstadts, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu og núverandi formanns Bandalags frjálslyndra demókrata á Evrópuþinginu, er nýja stjórnarskráin „Trójuhestur fyrir stjórnlyndara stjórnkerfi í Ungverjalandi sem muni byggjast eins flokks alræðisstjórn“.

Samkvæmt ákvæðum nýju stjórnarskrárinnar verður Ungverjaland ekki lengur þekkt sem „Lýðveldið Ungverjaland“ heldur einungis sem „Ungverjaland“.

Gagnrýnendur stjórnarskrárinnar segja hana draga úr völdum stjórnskipunardómstóls landsins, takmarka frelsi fjölmiðla, binda enda á sjálfstæði dómstóla í landinu, takmarka sjálfstæði seðlabanka landsins, gera Fidesz-flokknum auðveldara að vinna framtíðarkosningar og binda hendur framtíðarríkisstjórna í skattamálum.

Stjórnarskráin inniheldur einnig tilvísanir í guð, ákvæði sem skilgreinir hjónaband sem samband karls og konu og ákvæði sem skilgreinir getnað sem upphaf mannlegs lífs.


Ný stjórnarskrá samþykkt í Ungverjalandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert