Rúta steyptist fram af brú

Að minnsta kosti sextán manns fórust þegar yfirfull rúta rann út af brú á hraðbraut í mikilli hálku og féll niður í dal í Guizhou-héraði í suðvesturhluta Kína í dag. Alls voru 56 manns í rútunni sem mátti aðeins taka fimmtíu farþega.

Rannsókn er hafin á því hvernig slysið bar að en umferðarslys eru algeng á þjóðvegum Kína þar sem ökumenn hunsa oft umferðaröryggisreglur. Í desember létust fimmtán skólabörn þegar rúta sem þau voru farþegar í valt út í á. Í nóvember fórust nítján börn sem troðið hafði verið inn í níu sæta rútu.

Nærri því 70 þúsund manns létust í bílslysum í Kína árið 2010 og gerir það um 190 banaslys á dag samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert