5 þúsund munir úr Titanic boðnir upp

Uppboðið var kynnt fyrir fréttamönnum í dag
Uppboðið var kynnt fyrir fréttamönnum í dag Reuters

Fimm þúsund hlutir sem björguðust úr Titanic verða seldir á uppboði hinn 11. apríl næstkomandi, 100 árum eftir að skipið sökk.

Eitt þekktasta og mannskæðasta sjóslys allra tíma varð 15. apríl árið 1912 þegar risaskipið RMS Titanic fórst með um 1.500 manns.

Titanic var á þessum tíma eitt stærsta gufuknúna farþegaskip í heimi. Skipið var 269 m langt og 28 metra breitt, eigin þyngd þess var 46.328 tonn en mögulegur heildarþungi skipsins, særými, var 66.000 tonn. Það var jafnframt með þeim allra glæsilegustu. Um borð var meðal annars bókasafn, sundlaug, íþróttasalur, veggtennissalur og tyrkneskt bað. Sagt var að skipið væri ósökkvanlegt, svo haganlega væri það byggt. Annað kom þó á daginn, að því er fram kemur á Vísindavefnum.

Titanic hóf jómfrúarferð sína 10. apríl árið 1912 þegar það sigldi úr höfn í Southhamton, Englandi. Áætlunarstaður var New York í Bandaríkjunum, með viðkomu í Frakklandi og á Írlandi. Fjórum dögum seinna, 14. apríl 1912, var skipið statt um 600 km suður af Nýfundnalandi. Rétt fyrir miðnætti sáu tveir áhafnarmeðlimir allt í einu að skipið stefndi rakleiðis á stóran ísjaka. Annar þeirra hringdi strax í yfirmenn áhafnarinnar og lét vita að það sæist „ísjaki, beint af augum“. Strax var gefin skipun um að beygja frá, en það dugði ekki til og skipið rakst utan í ísjakann. Við það rofnaði skipsskrokkurinn og sjór flæddi inn.

Skömmu eftir miðnætti, hinn 15. apríl, varð ljóst að Titanic myndi sökkva. Þá var sent út neyðarkall og hafist handa við að rýma skipið og koma fólki í björgunarbáta. Ekkert skip var þó svo nálægt að það gæti komið til hjálpar í tæka tíð, utan eitt, en það ansaði ekki kallinu. Margir farþeganna gerðu sér ekki grein fyrir því hversu mikil hætta var á ferðum og voru hikandi við að yfirgefa Titanic. Allmargir björgunarbátar voru því settir á flot hálftómir. Að auki voru ekki nægjanlega margir björgunarbátar á skipinu til að rúma alla farþega og áhafnarmeðlimi.

Segja uppboðshaldarar að uppboðið sé sögulegt og það verði það eina sem haldið verði á munum sem fundust í flaki skipsins. Gert er ráð fyrir að munirnir seljist á 189 milljónir Bandaríkjadala. 

Sjónauki sem verður seldur á uppboðinu.
Sjónauki sem verður seldur á uppboðinu. Reuters
Bolli frá RMS Titanic
Bolli frá RMS Titanic Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert