Kveikti í sér í örvæntingu

Frá uppreisninni í Túnis fyrir ári síðan
Frá uppreisninni í Túnis fyrir ári síðan Reuters

Atvinnulaus karlmaður á fimmtugsaldri kveikti í sér fyrir utan skrifstofu stjórnvalda í Gafsa-héraði í Túnis í dag. Hafði maðurinn, ásamt fleiri atvinnulausum mönnum í héraðinu, reynt að fá viðtal við ráðherra án árangurs.

Fyrir rúmu ári kveikti ungur Túnisbúi, Mohammed Bouazisi, í sjálfum sér eftir að lögregla bannaði honum að selja ávexti og grænmeti í heimabæ sínum. Atburðurinn kom af stað mótmælaöldu ungs fólks í heimabæ hans, Sidi Bouzid, þar sem atvinnuleysi ungs fólks var mótmælt.

Þegar myndbandi af mótmælum, sem móðir Bouazizi stóð fyrir, var dreift á Facebook sáu fréttamenn arabísku sjónvarpssstöðvarinnar Al Jazeera það og birtu í fréttum sínum. Þegar Bouazizi lést af sárum sínum hinn 4. janúar í fyrra höfðu mótmælin breiðst út um allt Túnis og víðar.

Í grein Economist síðastliðið sumar segir Marc Lynch, sem er sérfræðingur í fjölmiðlum Mið-Austurlanda, að samskiptavefir og gervihnattasjónvarpsstöðvar hafi í sameiningu beint athyglinni að arabíska vorinu.

Samskiptavefir dreifðu myndum af mótmælum í Túnis og komu í veg fyrir að mótmælin yrðu barin niður af stjórnvöldum. Þess í stað hrökklaðist forseti landsins til 23 ára, Zine El-Abidine Bin Ali, frá völdum.

Maðurinn sem kveikti í sér í dag er þriggja barna faðir. Hann var fluttur á sjúkrahús og er í lífshættu.

Samkvæmt upplýsingum AFP-fréttaastofunnar er ástandið afar eldfimt í héraðinu og hefur lögreglu og almennum borgurum ítrekað lent saman. 

Að sögn vitna að atburðinum hellti maðurinn bensíni yfir sig og kveikti í án þess að segja eitt einasta orð.

Ráðherrarnir sem voru staddir í Gafsa-héraði í dag fara með félagsmál, iðnað og atvinnumál í ríkisstjórn Túnis.

Móðir Mohammed Bouazisi horfir hér á mynd af syni sínum …
Móðir Mohammed Bouazisi horfir hér á mynd af syni sínum sem talinn er hafa markað upphaf uppreisnarinnar í Túnis fyrir ári síðan. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert