Sýknaðir af ákæru fyrir morðtilraun

Lars Vilks.
Lars Vilks. Reuters

Þrír karlmenn, sem voru ákærðir fyrir að leggja á ráðin um að myrða sænska teiknarann Lars Vilks, voru sýknaðir í héraðsdómi í Gautaborg í dag. Mennirnir voru hins vegar sakfelldir og sektaðir fyrir brot á sænskum vopnalögum.

Vilks bakaði sér reiði múslima með því að teikna skopmynd af Múhameð spámanni í líki hunds árið 2007. Reynt hefur m.a. verið að kveikja í húsi hans á Skáni.

Vilks tilkynnti á bloggsíðu sinni sl. haust að hann ætlaði að sækja listamarkað í Gautaborg í september en á endanum lét hann ekki sjá sig. Sérsveit sænsku lögreglunnar rýmdi síðan sýningarskálann eftir að þar sást til þriggja manna sem voru vopnaðir hnífum. Þeir voru síðan handteknir ásamt fjórða manninum og ákærðir fyrir að hafa ætlað að ráða Vilks af dögum.

Saksóknarar kröfðust þriggja ára fangelsisdóms yfir mönnunum þremur en héraðsdómur sýknaði í dag þá Abdi Aziz Mahamud, Salar Sami Mahmood og Abdi Weli Mahmud af ákæru fyrir að leggja á ráðin um manndráp. Sagði dómurinn, að ekki væri nóg að sanna að mennirnir hefðu verið vopnaðir og ekki lægju fyrir sannanir um áform þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert