Afríkuríki standi vörð um réttindi samkynhneigðra

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Reuters

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna, hvatti í dag leiðtoga Afríkuríkja til þess að virða mannréttindi samkynhneigðra.

„Allt of lengi hafa mörg ríki horft framhjá eða jafnvel leyft mismunun byggða á kynhneigð og kynvitund,“ sagði Ban í ræðu sinni á fundi Afríkuráðsins í dag og bætti við: „Þessi mismunun hefur gert það að verkum að ríkisstjórnir fara með fólk eins og um sé að ræða annars flokks þegna eða jafnvel glæpamenn.“

Samkynhneigð er ennþá ólögleg í mörgum ríkjum Afríku. Gagnrýni erlendra aðila á frelsishömlur sem settar hafa verið á samkynhneigða hefur hingað vakið hörð viðbrögð margra afrískra þjóðarleiðtoga sem bregðast illir við og segja samkynhneigð ekki eiga heima í þjóðarmenningu þeirra.

Verst er ástandið í Úganda, en þar er samkynhneigð ólögleg. Nýlega var lagt fram frumvarp á löggjafarþingi landsins þess efnis að heimilt verði að dæma þá sem brjóta bannið gegn samkynhneigð til dauða. Ef frumvarpið verður að lögum verður dómstólum heimilt að dæma fólk til dauða í annað skiptið sem upp kemst að það hafi stundað kynlíf með einstakling af sama kyni og sömuleiðis í þeim tilfellum þar sem annar aðilinn er undir lögaldri eða smitaður af HIV-veirunni.

Mannréttindasamtök kenna evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra í Úganda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert