Samkomulag hefur náðst á meðal flokksformanna í ríkisstjórn Grikklands um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem gerðar voru að kröfu Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna björgunarpakkans svokallaða.
„Þetta er lokasamkomulag í þessum málum,“ hefur fréttastofan AFP eftir heimildarmanni nú fyrir skömmu. Tilkynningin kemur á sama tíma og fjármálaráðherrar evruríkjanna funda í Brussel til að reyna að ná lokaniðurstöðu um 130 milljarða evra björgunarpakka sem erfitt hefur verið að ná samstöðu um á meðal ríkjanna síðan í október á síðasta ári.