Eldtungur teygja sig til himins í Aþenu, höfuðborg Grikklands, en á morgun verða greidd atkvæði í gríska þinginu um umdeildar niðurskurðartillögur. Tillögurnar eiga að koma í veg fyrir að landið verði gjaldþrota.
Kveikt var í að minnsta kosti tíu byggingum, þar á meðal kvikmyndahúsi, banka, verslun og veitingahúsi, í mótmælunum í Aþenu í kvöld. Engar fréttir hafa enn borist af mannfalli vegna uppþotsins. Þá gengu hópar manna berserksgang og brutu og brömluðu allt sem á vegi þeirra varð. Margar verslanir urðu fyrir barðinu á þeim. Þá hafa um 40 mótmælendur særst í átökum við lögreglu og einnig hafa um 20 lögreglumenn meiðst. Þá kveiktu mótmælendur varðelda á götum og torgum.
Talið er að yfir 100 þúsund manns hafi mótmælt niðurskurðartillögunum á götum Aþenu í dag. Beitti lögreglan táragasi á mótmælendur sem réðust að henni með logandi bensínsprengjum og grjóti.