Gríska þingið ræðir aðgerðir

Reuters

Gríska þingið fundar nú um niðurskurð í opinberum útgjöldum en hann er sagður nauðsynleg forsenda þess að Grikkir hljóti 130 milljarða evra neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. 

Aðgerðirnar eru afar umdeildar í Grikklandi en auk fjölmennra mótmæla á götum úti hafa sprottið upp miklar deilur milli þingmanna gríska þingsins.

Verði tillögurnar að óbreyttu samþykktar má búast við því að mörg þúsund opinberir starfsmenn missi vinnuna. Þá munu jafnframt lægstu laun lækka um rúm 20 prósent og umtalsverðar breytingar verða gerðar á lífeyrissjóðakerfi landsmanna.

Þá hefur forsætisráðherra Grikklands, Lukas Papademos, varað við efnahags- og félagslegri ringulreið verði tillögurnar ekki samþykktar.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert