Fréttaskýring:Tveggja flokka kerfið í rúst

Við gríska þingið
Við gríska þingið Reuters

Þótt þing Grikklands hafi samþykkt sparnaðartillögur, sem ráðamenn á evrusvæðinu settu sem skilyrði fyrir neyðarláni til að afstýra greiðsluþroti gríska ríkisins, er óvissa um hvort þeim verði komið í framkvæmd eftir þingkosningar sem eiga að fara fram í apríl. Deilan um sparnaðartillögurnar hefur orðið til þess að tveggja flokka kerfið í Grikklandi er í rúst, að sögn Thanassis Diamantopoulos, stjórnmálafræðings við Aþenuháskóla.

Frá því að lýðræði var komið á að nýju í Grikklandi árið 1974 eftir sjö ára einræði hersins hafa forsætisráðherrar landsins komið úr tveimur flokkum, að undanskildum forsætisráðherrum þriggja skammlífra bráðabirgðastjórna. Flokkarnir tveir eru íhaldsflokkurinn Nýtt lýðræði og sósíalistaflokkurinn PASOK.

Enginn með meirihluta í fyrsta skipti frá 1993

Sósíalistaflokkurinn fékk hreinan meirihluta á gríska þinginu fyrir tæpum þremur árum, 160 þingsæti af 300. Flokkurinn hefur nú misst meirihlutann vegna þess að 22 þingmönnum var vikið úr honum eftir að þeir greiddu atkvæði gegn sparnaðartillögunum á þinginu. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 1993 sem enginn flokkur er með meirihluta á þinginu.

21 þingmanni var vikið úr Nýju lýðræði vegna þess að þeir neituðu að styðja sparnaðartillögurnar og flokkurinn missti þar með fjórðung þingsæta sinna.

Hægriflokkurinn LAOS hafnaði einnig sparnaðartillögunum og ákvað því á föstudag að ganga úr samsteypustjórninni sem mynduð var á liðnu ári undir forystu Lucas Papademos forsætisráðherra, fyrrv. varaforseta Seðlabanka Evrópu.

LAOS klofnaði þó einnig í deilunni um sparnaðaráformin því tveir af þingmönnum flokksins studdu tillögurnar í atkvæðagreiðslu á þinginu á sunnudaginn var. Auk LAOS eru vinstriflokkar og frjálslyndur miðflokkur í stjórnarandstöðu. Aðeins 193 þingmenn styðja nú samsteypustjórnina, þ.e. 131 sósíalisti og 62 þingmenn Nýs lýðræðis.

Thanassis Diamantopoulos segir að uppreisn þingmannanna 43 í stóru flokkunum tveimur hafi orðið tveggja flokka kerfinu að falli og valdið „pólitísku tómarúmi“ sem eigi sér ekki fordæmi í Grikklandi á síðustu áratugum.

Leiðtogi PASOK, Georgios Papandreou, á mjög undir högg að sækja eftir að hann neyddist til að segja af sér embætti forsætisráðherra í nóvember vegna skuldavanda Grikklands. Blossað hefur upp valdabarátta innan flokksins og hún gæti orðið til þess að Evangelos Venizelos fjármálaráðherra yrði leiðtogi sósíalistaflokksins. Financial Timestaldi hann versta fjármálaráðherra ríkja Evrópusambandsins á liðnu ári.

Haldi Papandreou velli er talið líklegt að hann styðji sparnaðaráformin eftir þingkosningarnar. Meiri óvissa er hins vegar um afstöðu Antonis Samaras, leiðtoga Nýs lýðræðis, sem spáð er mestu fylgi í kosningunum.

Vill breyta skilmálunum

Samaras hvatti þingið til að samþykkja sparnaðartillögurnar í ræðu fyrir atkvæðagreiðsluna á sunnudag en gaf til kynna að hann vildi semja um breytingar á skilmálum neyðaraðstoðarinnar eftir kosningarnar. „Ég vil komast hjá því að fara fram af bjargbrúninni í dag, ég vil vinna tíma, koma þjóðfélaginu í eðlilegt horf og hefja kosningabaráttu á morgun,“ sagði hann í lok ræðunnar. „Þess vegna bið ég ykkur um að greiða atkvæði með nýja lánasamningnum núna og geta síðan endursamið og breytt núverandi stefnu sem var þröngvað upp á okkur. En til að breyta henni þurfum við að halda velli sem land, sem þjóðfélag og lýðræðisríki. Ég bið ykkur ekki um að greiða atkvæði með rangri uppskrift. Ég varð fyrstur til að hafna henni og stend við það. En ég bið ykkur um að stíga frá bjargbrúninni og berjast saman síðar.“

Komist Samaras til valda eftir kosningarnar er því líklegt að ráðamennirnir á evrusvæðinu þurfi að hefja nýtt samningaþref við Grikki um skilmála aðstoðarinnar.

Atvinnulíf í lamasessi

» Fjórðungur allra fyrirtækja í Grikklandi hefur hætt rekstri frá árinu 2009. Helmingur smáfyrirtækja landsins segist ekki geta greitt öllum starfsmönnum sínum laun.
» Nær helmingur Grikkja undir 25 ára aldri er án atvinnu.
» Margir Grikkir hafa flúið landið, einkum ungt og vel menntað fólk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert