Fjöldamorðinginn: Frá smáþjófnaði í heilagt stríð

Mohamed Merah sést hér brosa framan í heiminn. Hann drap …
Mohamed Merah sést hér brosa framan í heiminn. Hann drap sjö manns, þar af þrjú börn. Reuters

Afbrotaferill franska fjöldamorðingjans Mohamed Merah hófst er hann kastaði grjóti í strætisvagn 17 ára gamall. Ferillinn endaði hins vegar með 32 klukkustunda umsátri og skotbardaga við lögregluna eftir að hann skaut sjö til bana á níu dögum í borginni Toulouse. En það er langt á milli smávægilegs afbrots til kaldrifjaðs fjöldamorðs í ætt við  „heilagt stríð“. Hver var Mohamed Merah?

Merah ólst upp í úthverfi borgarinnar Toulouse. Hann var 23 ára, fæddur 10. október árið 1988. Ræturnar liggja í Alsír og hann heimsótti Afganistan og Pakistan að minnsta kosti tvisvar, en engar vísbendingar eru um að hann hafi þar hlotið þjálfun í herbúðum hryðjuverkamanna.

Allir spyrja sömu spurningarinnar, hvað varð til þess að smáglæpamaður umbreyttist í hryðjuverkamann sem að lokum var felldur í skotbardaga við lögreglu, með 20 skotum í höfuðið?

Æskuvinir Merah eru undrandi. „Ég bara trúi því ekki að hann hafi gert þetta,“ segir Nico sem ólst upp í sama hverfi og Merah. „Hann var einn af okkur, hann var enginn öfgamaður eða ofsatrúarmaður.“

Bræður og systur

Merah ólst upp við sömu aðstæður og milljón ungir karlmenn víðsvegar um Evrópu. Hann fæddist í Toulouse en fjölskylda hans kom upprunalega frá Alsír. Hann átti fjögur systkini, tvær systur og tvo bræður.

Móðir hans ásakar sjálfa sig, spyr sig hvort hún hefði getað komið í veg fyrir fjöldamorð sonar síns. Hún er 54 ára og var í haldi lögreglunnar þar til á föstudag. Bróðir Merah, Abdelkader, hefur nú verið ákærður fyrir aðild að málinu en hann sagði m.a. við fjölmiðla í síðustu viku að hann væri stoltur af bróður sínum.

Þá segir í frétt The Telegraph að Merah hafi átt stjúpbróður, Sabri Essid,  sem hafi m.a. verið handtekinn í Sýrlandi árið 2006 í skjólhúsi al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna. Merah heimsótti þennan stjúpbróður sinn í fangelsi og sendi honum peninga. Þá er einnig sagt að Merah hafi verið í sambandi við sýrlenskan prest í Toulouse sem kallaður er Hvíti emírinn, sem fundaði reglulega með ungum „hugsjónamönnum“.

Foreldrar Mohameds Merah skildu er hann var fimm ára. Í kjölfarið eyddi faðir hans mestum tíma sínum í Alsír.

Lögmaður Merah, Christian Etelin, segir hann hafa verið lélegan nemanda. Hann hafi oft skipt um skóla og hætt námi mjög ungur.

Merah fór að vinna á bifvélaverkstæði er hann flosnaði upp úr skólanum en hann er sagður hafa elskað bíla og keppt oft á afviknum stöðum í kappakstri á annaðhvort bílum eða mótorhjólum. 

Þegar hann var 17 ára var hann handtekinn í fyrsta sinn. Hann og félagar hans höfðu grýtt strætisvagn.  Í framhaldinu leiddist hann  út í smáþjófnaði og skemmdarverk og var handtekinn 18 sinnum.

Fangelsisvistin breytti öllu

Í desember árið 2007 fór Merah í fangelsi í 18 mánuði fyrir að beita gamla konu sem hann rændi töskunni af, ofbeldi. Það var á þessum tímapunkti sem líf hans tók aðra stefnu og hann kynntist róttækum íslamistum en um 80% fanga í frönskum fangelsum eru múslímar, segir í frétt The Telegraph.

„Fangelsið var einfaldlega fullt af krökkum í sömu sporum og hann var - ungir vandræðapiltar úr úthverfunum,“ segir lögmaður Merah. Merah hafi fengið harðan dóm og litið svo á að kerfið hefði brugðist sér. Hann hafi farið að hata samfélagið.

Á jóladag árið 2008 reyndi Merah sjálfsvíg. Í kjölfarið var honum haldið á geðdeild  í tíu daga. Geðlæknirinn sem skoðaði Merah segir hann meðalgreindan en hafa sýnt af sér andfélagslega hegðun.

Í fangelsinu er Merah sagður hafa enduruppgötvað íslam en hann hafði sýnt trúarbrögðum fjölskyldu sinnar fálæti fram að þeim tíma.

Vildi komast í herinn

Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar reyndi Merah tvisvar sinnum að komast í franska herinn. Í fyrra skiptið árið 2008 er hann var 19 ára gamall.

„Hann stóðst öll próf en við rannsókn kom í ljós að hann var á sakaskrá og því var umsókn hans hafnað,“ segir herforinginn Bruno Lafitte.

Árið 2010 reyndi hann aftur að komast í herinn og þá í útlendingahersveitina í Toulouse. Hann var einn sólarhring í þjálfunarbúðum en lét sig svo hverfa.

Innanríkisráðherra Frakklands segir að Mohamed Merah hafi á þessum tíma tengst hópi 15 íslamskra öfgamanna í Toulouse.

Lögmaðurinn Etelin segir að í kjölfar reynslunnar af útlendingahersveitinni hafi hann forherst í afstöðu sinni til fransks samfélags, hann ætti einfaldlega ekki heima þar.

Æskuvinirnir neita því að Merah hafi sagt þeim frá áformum sínum. Hann hafi farið utan nokkrum sinnum, en sagst vera að heimsækja fjölskylduna í Alsír. Æskuvinurinn Nico segist þó hafa fundið mun á honum er hann kom úr fangelsinu. Hann hafi meðal annars farið að klæða sig undarlega.

Aðrir segjast þó hafa kynnst dekkri hlið Merah eftir fangelsisvistina. Nágrannakona hans segir hann hafa neytt ungan dreng til að horfa á myndbönd af aftökum í Afganistan. Móðir drengsins lét lögreglu vita en hún aðhafðist ekkert. Þá á Merah að hafa hefnt sín á fjölskyldu drengsins, komið heim til þeirra í fullum herklæðum, veifað sverði og hrópað „al-Qaeda, al-Qaeda!“

Merah á að hafa farið að minnsta kosti tvisvar til Afganistans og Pakistans. Árið 2010 var hann handtekinn í Kandahar en ekki er vitað hvers vegna. Ári síðar var hann aftur kominn til Pakistans. Hann var yfirheyrður á síðasta ári vegna ferðarinnar þangað en sýndi lögreglu dæmigerðar túristamyndir og var sleppt. Franska leyniþjónustan hefur fylgst með Merah um nokkurt skeið en aldrei talið tilefni til að handtaka hann.

Auga fyrir auga

Eftir fjöldamorðin í Toulouse sagði Merah við samningamenn frá lögreglunni sem og við  sjónvarpsstöð sem hann hringdi í til að játa glæpinn, að hann væri að hefna fyrir það að ekki mætti bera blæjur að íslömskum sið í Frakklandi.  Þá vildi hann mótmæla þátttöku Frakka í stríði í Afganistan. Hvað varðar morðið á þremur börnum í Gyðingaskóla í Toulouse sagði Merah drápin hefnd fyrir morð Ísraela á palestínskum börnum.

En nú vilja Frakkar vita hvers vegna frönskum öryggissveitum yfirsást hvað Merah hafði í hyggju. Mörgum þykir ótrúlegt að vopnasöfnun hans hafi t.d. ekki vakið grunsemdir en hann á að hafa átt að minnsta kosti átta byssur, þar á meðal öfluga hríðskotariffla.

Þá var íbúð hans nokkurs konar virki. Hann hafði byrgt glugga og undirbúið umsátur við lögreglu, að því er virðist.

Innanríkisráðherrann hefur ítrekað svarað því til að engin ástæða hafi verið til að handtaka Merah.

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, er í miðri kosningabaráttu. Hann segist nú ætla að herða hryðjuverkalög í landinu.

Á meðan virðist óöryggi og reiði íbúa úthverfa Toulouse fara vaxandi. „Það er ólga undir yfirborðinu,“ segir einn íbúinn. „Það er eins og það sé hér púðurtunna sem er við það að fara að springa.“

Íbúar í Toulouse efndu í dag til samkomu á götum …
Íbúar í Toulouse efndu í dag til samkomu á götum úti til að minnast fórnarlamba Merah og til að hvetja til samstarfs en ekki sundrungar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert