Abdelkader Merah, eldri bróðir fjöldamorðingjans Mohameds Merah, var leiddur fyrir dómara í París í dag þar sem saksóknari fer fram á að hann verði ákærður fyrir að hafa aðstoðað bróður sinn við morðin og að undirbúa hryðjuverkaárás.
Mohamed Merah var skotinn til bana af sérsveit frönsku lögreglunnar í síðustu viku eftir ríflega þrjátíu klukkustunda langt umsátur. Hann játaði að hafa myrt sjö, þar af þrjú börn fyrr í mánuðinum í Toulouse og nágrenni.
Abdelkader Merah neitar því að hafa aðstoðað bróður sinn við morðin en saksóknari leggur ekki trúnað á orð hans og segir gögn málsins benda til þess að hann hafi aðstoðað bróður sinn.