Fjölskylda fjöldamorðingjans Mohameds Merah, 23 ára, hefur ekki getað komið sér saman um hvar eigi að leggja hann til hinstu hvílu. Hluti fjölskyldunnar vill að það verði í Frakklandi en aðrir í Alsír.
Mohamed Merah var skotinn til bana af sérsveit frönsku lögreglunnar í síðustu viku eftir rúmlega þrjátíu klukkustunda langt umsátur. Hann myrti sjö manns, þar af þrjú börn, í mars.
Að sögn Abdallah Zekri, sem stýrir ráði múslíma í Frakklandi, óttast sumir í fjölskyldu hans að ef hann verði jarðaður í Frakklandi muni gröf hans aldrei fá að vera í friði og því fari betur á að jarða hann í Alsír en fjölskylda hans er frá Alsír.
Zekri segir að bróðir Merah, Abdelghani Merah, hafi sagt að bróðir hans vildi hvíla í Frakklandi og að hann yrði jarðaður í kyrrþey.