Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera ætlar ekki að sýna myndbönd sem franski morðinginn Mohamed Merah tók upp og send voru fréttastofunni á minnislykli.
Frönsk lögregluyfirvöld telja að samverkamaður Merah hafi sent minnislykilinn því hann var sendur á meðan umsátri um heimili Merah stóð. Þá var bróðir Merah, sem einnig er grunaður um að hafa verið samverkamaður hans, í haldi lögreglu.
Merah er sagður hafa kvikmyndað ódæði sín en hann myrti sjö manns á níu dögum í frönsku borginni Toulouse. Þrjú börn voru meðal fórnarlamba hans.
Á myndbandinu sem Al-Jazeera hefur undir höndum sést m.a. árás Merah á gyðingaskólann í Toulose, frá sjónarhorni morðingjans.