Franski gyðingaskólinn þar sem þrjú börn og einn kennari voru myrt í skotárás fyrr í mánuðinum hefur í kjölfar morðanna fengið fjöldann allan af hótunum í símtölum og bréfum þar sem lýst er yfir gyðingahatri.
Ozar Hatorah-gyðingaskólinn varð vettvangur þriggja morða af hálfu Mohamed Merah, raðmorðingjans sem lét lífið tveimur sólarhringum síðar í skotbardaga við lögreglu. Merah skaut til bana sjö ára stúlku, ungan kennara við skólann og tvo syni hans.
Morðin vöktu mikinn óhug en í kjölfar þeirra segir talsmaður gyðingasamfélagsins í Toulouse að tölvupósthólf skólans hafi fyllst af skilaboðum þar sem kallað var eftir gyðingamorðum eða skólamorðin réttlætt með vísan í deiluna milli Ísraels- og Palestínumanna. Michael Valet, saksóknari í Toulouse, segist nú hafa fyrirskipað lögreglurannsókn á því hverjir standa baki tölvupóstunum og símtölunum.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og fleiri þjóðarleiðtogar hafa kallað eftir samstöðu almennings gegn hatursmorðunum og lagt áherslu á að glæpir Mohamed Merah séu ekki lýsandi fyrir múslíma í Frakklandi.
Sumir aðrir, þar á meðal forsetaframbjóðandinn og þjóðernissinninn Marine Le Pen, segja hinsvegar að árásirnar megi rekja til of frjálslegrar innflytjendastefnu í Frakklandi, þrátt fyrir að Merah hafi ekki verið innflytjandi sjálfur heldur innfæddur, franskur múslími.