Hollande enn með forystu

Francois Hollande nýtur mest fylgis meðal franskra kjósenda en litlu …
Francois Hollande nýtur mest fylgis meðal franskra kjósenda en litlu munar á milli hans og Sarkozy. AFP

Frambjóðandi franskra sósíalista í komandi kosningum, Francois Hollande, nýtur enn mest fylgis meðal kjósenda en litlu munar á fylgi við hann og sitjandi forseta, Nicolas Sarkozy.

Margir töldu að fjöldamorð Mohamed Merah myndu færa fylgið til Sarkozy og er ljóst að meirihluti kjósenda styður viðbröð forsetans í kjölfar árásanna sem kostuðu sjö mans lífið. Merah var öfgafullur múslími og sagði meðal annars ástæðuna fyrir morðunum vera þá staðreynd að franski herinn tekur þátt í hernaði í Afganistan og eins var hann andsnúinn búrkubanni sem gildir í Frakklandi. 

Sarkozy hefur verið áberandi í kastljósi fjölmiðla undanfarna daga vegna árásanna og hefur tekið þátt í minningarathöfnum um þá sem létust í árásunum og útförum hermannanna þriggja sem Merah myrti. Á sama tíma hefur Hollande verið minna áberandi.

Í skoðanakönnun sem Harris Interactive birti í dag kemur fram að 655 Frakka styður viðhorf Sarkozys í kjölfar árásanna og 59% hafa sömu skoðun á viðbrögðum Hollande. Hins vegar styðja 37% skoðanir Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda Þjóðfylkingarinnar, sem hefur beint spjótum sínum að múslímskum innflytjendum í kosningabaráttunni en hún sakar stjórnvöld um linkind gagnvart grundvallarhættu. Er það mun minna hlutfall heldur en almennt var talið að styddi hana svo skömmu eftir árásirnar.

Er fylgi þeirra Hollande og Sarkozy um 30% og þegar spurt er að því hvorn fólk myndi kjósa í seinni umferðinni sem fer fram þann 6. maí næstkomandi er Hollande með ívið meira fylgi en Sarkozy en minni munur er nú á milli þeirra heldur en í fyrri skoðanakönnunum.

Í fjórum skoðanakönnum sem birtar voru í Frakklandi í gær kemur fram að Hollande myndi fá 54% atkvæða í seinni umferðinni en Sarkozy 46%.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands nýtur nú meiri stuðnings meðal kjósenda …
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands nýtur nú meiri stuðnings meðal kjósenda en áður Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert