Fjöldamorðinginn Mohamed Merah verður borinn til grafar í Toulouse í Frakklandi í dag. Fjölskylda Merah vildi að hann yrði grafinn í fjölskyldugrafreit í Alsír, þaðan sem hann var ættaður, en alsírsk yfirvöld vildu af öryggisástæðum ekki að líkið yrði flutt til landsins.
Fjölskyldan segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með þessa ákvörðun yfirvalda en skilji þó ástæðurnar sem búi að baki henni.
Merah myrti sjö manns, þar af þrjú börn, á átta dögum í Toulouse. Franska lögreglan skaut hann til bana síðasta fimmtudag eftir 32 klukkustunda umsátur.
Hann verður grafinn í Cornebarrieu-kirkjugarðinum kl. 15 að staðartíma og er talið að gröf hans verði ómerkt.