Franskur lögmaður segist hafa undir höndunum sönnunargögn sem sýni að Mohamed Merah, sem er grunaður um að hafa myrt sjö manns, hafi sagt lögreglunni að hann væri saklaus. Lögreglan skaut Merah til bana síðla í mars eftir að hafa setið um íbúð hans í 32 tíma.
Lögreglan segir Merah hafa játað morðin á sig og neitað að gefa sig friðsamlega fram. Lögmaður föður Merah, Zahia Mokhtari, segist hinsvegar hafa komist yfir tvö myndbönd sem sýni Merah segja að hann hafi ekkert gert. Mokhtari vill ekki segja frá því hvernig hún fékk þessi myndbönd.
Faðir Merah hefur beðið Mokhtari um að höfða mál gegn sérsveit frönsku lögreglunnar sem skaut son hans til bana.