Í kjölfar Titanic

Bernadette og Brice Christie á þilfari skipsins sem nú fer …
Bernadette og Brice Christie á þilfari skipsins sem nú fer í sömu ferð og Titanic fyrir 100 árum. Reuters

Afkomendur þeirra sem voru um borð í farþegaskipinu Titanic er það sökk fyrir hundrað árum, eru nú lagðir í ferðalag, sömu siglingarleið og ættmenni þeirra fóru í.

1.309 farþegar eru um borð í skipinu nú, jafnmargir og fyrir hundrað árum. Að auki voru yfir 900 í áhöfn þá en um 1.500 manns týndu lífi er Titanic sökk. Skipið sem fer í minningarsiglinguna heitir Balmoral og mættu margir farþeganna í fatnaði í anda þess tíma er Titanic fór í örlagaríka jómfrúrferð sína.

Ferðin yfir hafið mun taka 12 daga og verður m.a. varpað akkerum á þeim stað þar sem Titanic sigldi á ísjakann og fórst skömmu síðar. Þar verður haldin minningarathöfn um fórnarlömb slyssins.

„Það er enn allt svo ótrúlegt sem gerðist þessa nótt,“ segir Jane Allen en frænka hennar og eiginmaður hennar voru í brúðkaupsferð með Titanic. Frænkan komst lífs af en eiginmaðurinn drukknaði. Um 50 farþeganna nú eru tengdir fórnarlömbum slyssins fjölskylduböndum.

Graham Free klæddist búningi í tilefni dagsins en neitar því að verið væri að markaðsvæða harmleikinn. „Ég hef verið aðdáandi sögunnar um Titanic frá því að ég var níu ára og ég kemst nú ekki nær því að upplifa þetta en að fara í þessa ferð. Við erum ekki hér til að hæðast. Við erum hér til að gleðjast og minnast þeirra sem fórust. Ég held að tilfinningarnar eigi eftir að taka völdin þegar minningarathöfnin verður haldin á slysstaðnum.“

Ferðin nú er að einu leyti mjög frábrugðin þeirri sem Titanic fór í: Öruggið er í fyrirrúmi og nógu margir björgunarbátar eru fyrir alla sem eru um borð.

Matseðlarnir eru þeir sömu og voru á Titanic, hljómsveit er um borð sem mun leika sömu tónlist og leikin var í Titanic og þar fram eftir götunum.

Sharon Sutton frá Dublin veifar á höfninni í Southampton á …
Sharon Sutton frá Dublin veifar á höfninni í Southampton á Englandi þaðan sem Balmoral lagði úr höfn í dag. Reuters
Stephen og Judy Keast frá Ástralíu voru í fötum í …
Stephen og Judy Keast frá Ástralíu voru í fötum í anda þess tímabils er Titanic sökk. Reuters
Megan Zubok og Evan Perelekos frá Detroit fóru með skipinu …
Megan Zubok og Evan Perelekos frá Detroit fóru með skipinu í minningarsiglinguna í búningum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert