Minningarferð um Titanic

Um 1.300 farþegar hófu í gær siglingu á slóðir Titanic, en þann 15. apríl verða 100 ár frá því að skipið sökk í jómfrúarferð sinni yfir Atlantshafið, þar á meðal nokkrir ættingjar þeirra sem komust af. Skipið lagði úr höfn í Southampton á Englandi og mun sigla sömu leið og Titanic gerði árið 1912 þegar það sökk eftir aðeins 5 daga á sjó.

„Fyrir mjög marga sem ég hef rætt við er þessi ferð frábær leið til þess að minnast ættmennanna sem fórust fyrir 100 árum,“ segir Miles Morgan sem kom að skipulagningu ferðarinnar.

Karlmenn sem komust af höfðu samviskubit

„Ég þekkti afa minn og þó ég hafi bara verið 5 ára þegar hann lést þá skiptir það engu máli þó ég hefði verið 55 ára. Hann talaði aldrei um þetta. Það var ákveðið samviskubit á meðal karla sem lifðu skipskaðann af vegna þess að það voru bæði konur og börn sem drukknuðu,“ segir Philip Littlejohn, en afi hans Alexander starfaði sem þjónn á fyrsta farrými Titanic.

Mary Beth Crocker hefur beðið í 6 mánuði eftir að komast í brúðkaupsferð. „Við höfum haft áhuga á sögu Titanic í langan tíma. Við búum á söguslóðum í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna og við elskum sögulega varðveislu, sagnfræði, búningasögu og allt sögutengt. Það var ein af aðal ástæðum þess að við komum. Okkur langaði einnig í ævintýr,“ sagði Crocker.

Boðið verður upp á fyrirlestra um sögu Titanic um borð

Um borð munu farþegar eiga kost á fyrirlestrum og viðburðum sem munu varpa nýju ljósi á sögu Titanic sem endaði á því að 1.514 farþegar drukknuðu eftir að skipið lenti á ísjökum sem rifu gat á skrokk þess.

„Ég held að ferðin muni hafa tilfinningaleg áhrif á mjög marga farþega og frá mínum sjónarhóli sem fyrrum kennara mun ferðin einnig varpa ljósi á margar sögulegar staðreyndir um Titanic og áhrifin sem skipskaðinn hafði á umheiminn,“ segir rithöfundurinn Charles Haas sem hefur unnið mikið í gegnum tíðina að því að varpa ljósi á sögu Titanic.

Þessi minningarferð er ekki sú eina, en önnur slík leggur úr höfn í New York í dag.

Aðgangur að 200.000 heimildum um skip, áhöfn og farþega

Á vef breska ríkisútvarpsins BBC, kemur fram að opnuð hafi verið vefsíða þar sem nálgast megi um 200.000 gögn frá skipinu, áhöfn og farþegum. Þar á meðal eru erfðaskrár, m.a. skipstjórans Edward J Smith. Upplýsingar um starfsfólk skipsins, farþega þess og fleiri skjöl. Opið verður fyrir aðgengi almennings að skjölunum endurgjaldslaust út maímánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert