Svo virðist sem minningarferð um Titanic fari heldur brösuglega af stað því flytja þurfti veikan farþega með þyrlu frá borði. Skipið, sem nefnist Balmoral, lagði af stað úr höfn í Southampton síðastliðinn sunnudag og mun sigla sömu leið og Titanic gerði árið 1912 þegar það sökk í jómfrúarferð sinni eftir aðeins 5 daga á sjó.
Fljótlega eftir stutta viðkomu á Írlandi þurfti áhöfn skipsins að kalla eftir neyðaraðstoð írsku landhelgisgæslunnar og var þá farþegaskipið statt undan ströndum landsins. Landhelgisgæslan sendi þegar í stað björgunarþyrlu að Balmoral sem snúið hafði við og sigldi til móts við þyrluna.
Sigmaður sótti farþegann og var hann fluttur á sjúkrahús á Írlandi en hann er ekki talinn vera lífshættulega veikur. Frá því að lagt var úr höfn hefur Balmoral þurft að glíma við vonskuveður á siglingu sinni um úthafið með tilheyrandi óþægindum fyrir farþega og áhöfn skipsins.
Í tilkynningu frá skipafélaginu segir að öryggi fólks um borð sé ávalt í fyrirrúmi og því hafi verið tekin ákvörðun um að óska eftir aðstoð gæslunnar.
Eftir björgunaraðgerðina hélt farþegaskipið áfram för sinni og segja talsmenn skipafélagsins atvik þetta ekki koma til með að hafa nein áhrif á tilgang ferðarinnar: Að minnast þeirra er létu lífið þegar Titanic sökk en þann 15. apríl nk. verða eitthundrað ár liðin frá slysinu.
Þetta er ekki eina minningarferðin sem haldin er því önnur hélt úr höfn í New York.