Réttarhöldin yfir Anders Behring Breivik halda nú áfram í Ósló og er þetta þriðji dagurinn sem hann er sjálfur yfirheyrður í vitnastúkunni.. Breivik sagðist í morgun telja að hann hefði þjálfast í því að miða byssu með því að spila tölvuleikinn Modern Warfare. Saksóknara mislíkaði að Breivik brosti þegar hann talaði um „þjálfunina“.
„Hér sitja eftirlifendur sem misstu ástvini á Útey, hvernig heldur þú að þeim líði þegar þú talar um að þjálfa þig í miði,“ sagði saksóknarinn Svein Holden við Breivik í réttarsalnum. Breivik svaraði að líklega finndu þau fyrir viðbjóði. Að sögn NRK.no kom Breivik því einnig á framfæri í morgun að hann væri ósáttur við spurningarnar sem hann fengi, en Holden tók það skýrt fram að hann hefði ekkert um það að segja hvers hann yrði spurður.
Gaf sjálfum sér „hvíldarár“ fyrir píslarvættið
Fram hefur komið að á tæplega árs tímabili frá 2006 til 2007 bjó Breivik heima hjá móður sinni í Ósló og gerði nánast ekkert annað en að spila tölvuleikinn World of Warcraft. Breivik kallaði þetta tímabil í lífi sínu „hvíldarár“, gjöf sem hann færði sjálfum sér fyrir að gerast píslarvottur. Hann sagðist þegar á þeim tíma hafa ákveðið að framkvæma ofbeldisverk.
Aðspurður í morgun hvers vegna hann eyddi öllum þessum tíma í tölvuleikjaspil sagði hann að World of Warcraft hafi fyrst og fremst verið áhugamál. Hinsvegar hafi hann spilað tölvuleikinn Modern Warfare til þess að æfa sig fyrir morðin á Útey.
Tölvuleikurinn sé stríðshermir og þar hafi hann getað þjálfað sig í að miða á skotmark á hreyfingu, lifandi fólk. Hann sagði að tölvuleikurinn væri hannaður þannig að hver sem er gæti notað hann, hvaða amma sem er gæti orðið leyniskytta með því að spila leikinn.