Einum af þekktustu andófsmönnum í Kína, Chen Guangcheng, hefur tekist að flýja úr stofufangelsi. Ekki liggur fyrir hvar hann er niðurkominn. Chen, sem er blindur, hefur oft verið kallaður berfætti lögfræðingurinn.
Chen hefur verið í stofufangelsi í bænum Dongshigu í Shandong-héraði síðan 2010 þegar honum var sleppt úr fangelsi. Stuðningsmenn hans segja að hann hafi sloppið úr haldi á sunnudag.
Í frétt BBC um málið er haft eftir einum stuðningsmanni Chen að hann sé í Beijing, en einnig eru óstaðfestar fréttir um að hann dvelji í sendiráði Bandaríkjanna.
Í dag var birt myndskeið þar sem Chen ávarpar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína. Hann setur fram þrjá kröfur, m.a. að rannsakað verði hvers vegna fólk úr fjölskyldu sinni hafi mátt sæta barsmíðum.
Chen Guangcheng missti sjónina í barnæsku. Hann hefur enga formlega lögfræðimenntun þar sem blindum er meinað að sækja sér framhaldsmenntunar í Kína. Chen hefur gagnrýnt stefnu kínverskra stjórnvalda um að foreldrar megi bara eiga eitt barn. Hann hefur lagt fram upplýsingar um að stjórnvöld í Shandong-héraði hafi þvingað um 7.000 konur í fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerðir. Chen hefur einnig aðstoðað bændur í Kína sem eiga í deilum vegna lands og hann hefur beitt sér í þágu fatlaðra í Kína.
Chen hefur oft verið kallaður berfætti lögfræðingurinn. Fólk víða um heim hefur hvatt til þess að honum yrði sleppt úr haldi. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur ítrekað skorað á kínversk yfirvöld að sleppa honum lausum.