Flótti Chens gæti haft mikil áhrif

Flótti kínverska andófsmannsins Chen Guangcheng, „berfætta lögfræðingsins“ sem strauk úr stofufangelsi og heldur núna til í bandaríska sendiráðinu í Peking, gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á tengsl Kínverja og Bandaríkjamanna.

Chen, sem er blindur, var í stofufangelsi í bænum Dongshigu í Shandong-héraði frá því að hann var látinn laus úr fangelsi árið 2010. Stuðningsmenn hans segja að hann hafi sloppið úr haldi á sunnudag. Chen var í haldi vegna andstöðu sinnar við að kínversk yfirvöld neyði almenna borgara í ófrjósemisaðgerðir vegna stefnunnar um eitt barn á fjölskyldu.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanleg í opinbera heimsókn til Kína á morgun og er flótti Chens talinn geta hafa veruleg áhrif á samskipti ríkjanna tveggja.  Fyrirhugað er að Clinton ræði málefni Írans, Sýrlands og Norður-Kóreu við kínverska ráðamenn.

Frétt mbl.is: Berfætti lögfræðingurinn slapp

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert