Obama vildi ekkert segja um Chen

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, vildi á blaðamannafundi í dag ekki staðfesta að kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng nyti verndar bandarískra stjórnvalda í sendiráði Bandaríkjanna í Peking.

Chen, sem er blindur, var í stofufangelsi í bænum Dongshigu í Shandong-héraði frá því að hann var látinn laus úr fangelsi árið 2010. Hann slapp úr haldi fyrir einni viku. Ekkert hefur verið látið uppi um hvar hann er niðurkominn.

Málið er viðkvæmt því bandarísk stjórnvöld vilja ekki spilla samskiptum við stjórnvöld í Peking. Bandaríkjamenn þurfa á stuðningi Kínverja að halda í deilum við Íran og N-Kóreu. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á leið til Kína í opinbera heimsókn, en hún hefur oftar en einu sinni skorað á kínversk stjórnvöld að láta Chen lausan.

Chen var í haldi vegna andstöðu sinnar við að kínversk yfirvöld neyði almenna borgara í ófrjósemisaðgerðir vegna stefnunnar um eitt barn á fjölskyldu.

Barack Obama
Barack Obama BRENDAN SMIALOWSKI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert