Kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng hefur yfirgefið sendiráð Bandaríkjanna í Peking og er á leið til fjölskyldu sinnar, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum embættismanni og kínverskum fjölmiðlum.
Chen Guangcheng flúði úr stofufangelsi í Kína nýverið og er talið að flótti hans geti haft mikil áhrif á samskipti Kína og Bandaríkjanna. Hann hefur dvalið í bandaríska sendiráðinu í Peking frá því í síðustu viku.
Kínversk stjórnvöld hafa krafið bandarísk yfirvöld um afsökunarbeiðni fyrir að hafa veitt Chen skjól í sendiráði sínu, samkvæmt frétt Xinhua ríkisfréttastofunnar.
Hvarf Chens, sem er blindur, fyrir rúmri viku er sagt mikil hneisa fyrir ráðamenn í Kína. Opinbera ritskoðunin reynir nú eftir mætti að hindra umræður á netinu um málið og stöðvar leit að öllum síðum sem tengdar hafa verið við málið, m.a. vefsíðum um blindu og kvikmyndina Shawshank Redemption sem fjallar um fangaflótta.
Chen Guangcheng er einkum þekktur fyrir að afhjúpa mannréttindabrot embættismanna í Shandong sem þvinguðu a.m.k. 7.000 konur til að fara í ófrjósemisaðgerð eða í fóstureyðingu eftir allt að átta mánaða meðgöngu, í því skyni að tryggja að lög um eitt barn á fjölskyldu væru virt. Afhjúpunin vakti mikla athygli víða um heim og bandaríska tímaritið Time taldi Chen á meðal hundrað áhrifamestu manna í heiminum árið 2006 vegna baráttu hans gegn mannréttindabrotum í Kína.
Chen fæddist í þorpi í Shandong 12. nóvember 1971 og varð blindur í æsku. Hann gekk í skóla fyrir blint fólk og nam um tíma lögfræði í háskóla án þess að útskrifast en hélt áfram að læra lögfræði upp á eigin spýtur.
Chen varð fyrst þekktur í júní 2005 þegar hann hóf hópmálsókn og sakaði embættismenn í borginni Linyi í Shandong um að hafa neytt konur til að fara í ófrjósemisaðgerð eða í fóstureyðingu seint á meðgöngu, meðal annars með barsmíðum og árásum á heimili þeirra. Uppljóstrunin varð til þess að Chen og fjölskyldu hans var haldið í stofufangelsi í hálft ár.
Chen handtekinn í júní 2006, sakaður um brot á umferðarlögum og eignaspjöll. Hann neitaði sök og margir telja að yfirvöldin hafi ákært hann til að þagga niður í honum. Hann var síðan dæmdur í fjögurra ára fangelsi.
Chen lauk afplánun fangelsisdómsins í september 2010 og hefur honum verið haldið í stofufangelsi frá þeim tíma allt þar til hann slapp úr fangelsinu fyrir rúmri viku síðan.