Hæstiréttur Danmerkur hefur staðfest fangelsisdóm yfir þrítugum sómölskum karlmanni sem ætlaði að myrða danska teiknarann Kurt Westergaard. Í héraðsdómi var maðurinn, Mohamed Geele, dæmdur í níu ára fangelsi fyrir tilraun til að fremja hryðjuverk og morðtilraun en hæstiréttur þyngdi dóminn í tíu ár.
Geele réðst inn á heimili Westergaards á nýársnótt 2010, vopnaður öxi og hótaði að myrða Westergaard, sem er meðal annars þekktur fyrir skopteikningar af Múhameð spámanni sem birtust í Jyllands Posten og ollu miklum usla meðal múslíma.
Westergaard komst undan, læsti sig inni í baðherbergi og hringdi í lögregluna. Geele réðst síðan á lögreglumenn með öxinni og hnífi en þeim tókst að handtaka hann.
Mohamed Geele var eins og áður sagði dæmdur í tíu ára fangelsi og verður honum vísað úr landi eftir að hann hefur lokið afplánun, samkvæmt frétt Berlingske.