Erítrea hefur velt Norður-Kóreu úr sessi sem það land þar sem mesta ritskoðunin á fjölmiðlum á sér stað. Í þriðja og fjórða sæti eru Sýrland og Íran. Þetta kemur fram í nýjum lista Nefndar til verndar blaðamönnum (e. Committee to Protect Journalists, CPJ).
Að sögn nefndarinnar komst Erítrea efst á listann eftir að stjórnvöld bönnuðu alla erlenda miðla þar í landi. Þá stjórnar sérstakt upplýsingaráðuneyti því um hvað innlendir fjölmiðlar fjalla, alveg niður í smæstu smáatriði.
„Í hvert skipti sem blaðamaður þurfti að skrifa frétt þá útveguðu þeir viðmælendur og sögðu hvað þyrfti að koma fram,“ hefur nefndin eftir erítreskum blaðamanni í útlegð um vinnubrögð starfsmanna upplýsingaráðuneytisins. Yfirleitt voru blaðamenn látnir skrifa mikið um forseta landsins, Issaias Afeworki, svo að hann væri alltaf í sviðsljósinu.
Norður-Kórea var í fyrsta sæti í fyrra en situr nú í því öðru. Má það m.a. rekja til þess að AP-fréttaveitan fékk að opna útibú í höfuðborginni Pjongjang. Erlendum fréttamönnum er þó enn afar sjaldan hleypt inn í landið og var ritskoðunin í kringum andlát Kim Jong-Il og nýlegt eldflaugarskot mjög mikil.
Mikil átök hafa geisað í Sýrlandi undanfarið og í kjölfarið herti ríkisstjórnin tök sín á fjölmiðlunum með þeim afleiðingum að landið fór úr níunda sæti á lista CPJ árið 2006 í það þriðja nú í ár. Erlendum fjölmiðlamönnum hefur verið bannað að koma til landsins og greina frá ástandinu þar og hafa innfæddir blaðamenn lagt líf sín í hættu við að greina frá gangi mála.
Í Íran, sem vermir fjórða sætið á listanum, eru notaðar ýmsar aðferðir til að ritskoða efni á netinu og þá hafa stjórnvöld gjarnan fangelsað blaðamenn til að stjórna umfjöllun um kjarnorkuáætlun landsins.
Löndin sem lentu í 5.-10. sæti eru Miðbaugs-Gínea, Úsbekistan, Mjanmar (Búrma), Sádi-Arabía, Kúba og Hvíta-Rússland.