Óttast um líf sitt

Kínverski andófsmaðurinn Chen Guangcheng segist óttast um líf sitt og því vilji hann yfirgefa heimalandið. Chen segir að hann hafi yfirgefið sendiráð Bandaríkjanna, þar sem hann hefur dvalið í viku, vegna þrýstings frá kínverskum stjórnvöldum sem hafi hótað fjölskyldu hans.

Á vef BBC hafnar sendiherra Bandaríkjanna í Kína, Gary Locke, þessum ummælum Chen og segir að hann hafi ekki verið beittur þrýstingi. 

Líkt og fram kom á mbl.is í gærkvöldi biðlaði Chen til forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, í viðtali við CNN um hjálp við að koma fjölskyldu sinni úr landi. Chen segir viðbrögð Bandaríkjastjórnar valda honum vonbrigðum. Starfsmenn sendiráðsins hafi sífellt þrýst á hann að yfirgefa sendiráðið og þeir hafi heitið honum því að starfsfólk sendiráðsins myndi gæta hans á sjúkrahúsinu sem hann fór á í gær. Hins vegar hafi sendiráðsstarfsmennirnir látið sig hverfa um leið og hann hafi verið lagður inn.

Eiginkona Chens, Yuan Weijing, tekur í sama streng og segir að þeirra bíði ekkert annað en járnbúr ef þau verða áfram í Kína.

Mál Chens hefur skyggt mjög á tveggja daga heimsókn Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og  Timothy Geithner, fjármálaráðherra, til Kína þar sem þau ræða málefni Norður-Kóreu og Sýrlands við kínversk stjórnvöld.

Áður hafði Clinton lýst yfir stuðningi við Chen en hún minntist ekki einu orði á hann við upphaf viðræðnanna við kínversk stjórnvöld þrátt fyrir að hafa rætt mannréttindi, samkvæmt frétt BBC.

Chen Guangcheng er einkum þekktur fyrir að afhjúpa mannréttindabrot embættismanna í Shandong sem þvinguðu a.m.k. 7.000 konur til að fara í ófrjósemisaðgerð eða í fóstureyðingu eftir allt að átta mánaða meðgöngu, í því skyni að tryggja að lög um eitt barn á fjölskyldu væru virt. Afhjúpunin vakti mikla athygli víða um heim og bandaríska tímaritið Time taldi Chen á meðal hundrað áhrifamestu manna í heiminum árið 2006 vegna baráttu hans gegn mannréttindabrotum í Kína.

Chen fæddist í þorpi í Shandong 12. nóvember 1971 og varð blindur í æsku. Hann gekk í skóla fyrir blint fólk og nam um tíma lögfræði í háskóla án þess að útskrifast en hélt áfram að læra lögfræði upp á eigin spýtur.

Chen varð fyrst þekktur í júní 2005 þegar hann hóf hópmálsókn og sakaði embættismenn í borginni Linyi í Shandong um að hafa neytt konur til að fara í ófrjósemisaðgerð eða í fóstureyðingu seint á meðgöngu, meðal annars með barsmíðum og árásum á heimili þeirra. Uppljóstrunin varð til þess að Chen og fjölskyldu hans var haldið í stofufangelsi í hálft ár.

Chen handtekinn í júní 2006, sakaður um brot á umferðarlögum og eignaspjöll. Hann neitaði sök og margir telja að yfirvöldin hafi ákært hann til að þagga niður í honum. Hann var síðan dæmdur í fjögurra ára fangelsi.

Chen lauk afplánun fangelsisdómsins í september 2010 og hefur honum verið haldið í stofufangelsi frá þeim tíma allt þar til hann slapp úr fangelsinu.

Chaoyang sjúkrahúsið þar sem Chen Guangcheng var lagður inn í …
Chaoyang sjúkrahúsið þar sem Chen Guangcheng var lagður inn í gær. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert